Stýrivaxtalækkun Seðlabankans upp á 0,5 prósentustig, sem tilkynnt var í morgun, er allt of lítil og kemur allt of seint. Þetta sagði Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins. Sagði hann fréttirnar eftir sem áður jákvæðar.
Hvatti hann til þess að vísitala neysluverðs hér á landi væri aðlöguð því sem gerðist í nágrannalöndum og húsnæðisliðurinn tekinn út úr henni. Það hefði kostað fólkið í landinu verulegar fjárhæðir. Sagðist hann enn fremur vona að Seðlabankinn hefði öðlast kjark til þess að lækka vexti enn frekar enda væru þeir eftir sem áður of háir.