„Forsætisráðuneytið kom ekki að stjórnsýsluákvörðunum í tengslum við nauðasamningana. Þær voru teknar af Seðlabanka Íslands og fólust í veitingu undanþága frá fjármagnshöftum.“
Þetta segir í svari Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra við skriflegri fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, þingmanni Samfylkingarinnar, þar sem einkum var spurt um aðkomu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar að samskiptum við kröfuhafa föllnu bankanna í tengslum við vinnu við afnám fkármagnshaftanna á meðan hann gengdi embætti forsætisráðherra.
Frétt mbl.is: Spyr um samskipti við kröfuhafa
Fyrirspurn Árna Páls var lögð fram 4. apríl, daginn eftir að Kastljós Ríkisútvarpsins fjallaði um svonefnd Panama-skjöl þar sem meðal annars kom fram að nafn Sigmundar væri að finna í þeim. Tengdist það félagi í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu Sigmundar, á Bresku jómfrúareyjum en Sigmundur hafði um tíma verið skráður fyrir helmingshlut í félaginu. Félagið var á sínum tíma stofnað utan um arf Önnu Sigurlaugar.
„Þáverandi forsætisráðherra fékk upplýsingar um stöðu mála og valkosti á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál og sat kynningarfundi með sérfræðingum úr framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta og fulltrúum í stýrinefnd um losun hafta,“ segir áfram í svari fjármálaráðherra og ennfremur:
„Málefni sem varða losun fjármagnshafta á slitabú föllnu bankanna voru tekin upp með reglubundnum hætti á fundum nefndarinnar og kynnt af fjármála- og efnahagsráðherra ásamt sérfræðingum ráðuneytisins eða framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta eftir atvikum. Valkostir voru ræddir og afstaða tekin til þeirra en ákvarðanir, sér í lagi um lagasetningu, voru teknar í ríkisstjórn.“
Stjórnsýsluákvarðanir varðandi nauðsamninga við kröfuhafa hafi hins vegar, sem fyrr segir, verið teknar af Seðlabanka Íslands en ekki forsætisráðuneytinu. Lögð er áhersla á að undanþágubeiðnir slitabúa föllnu bankanna hafi byggst á nauðasamningum þeirra við kröfuhafa en ekki samningum við stjórnvöld. Einnig var spurt um aðkomu Sigmundar Davíðs að vinnu stýrihóps um afnám hafta.
„Tillögur stýrinefndarinnar eru svo ræddar í ráðherranefnd um efnahagsmál og eftir atvikum samþykktar af ríkisstjórn. Þáverandi forsætisráðherra sat ekki fundi stýrinefndar en sat hins vegar kynningarfundi með ráðgjöfum ásamt fulltrúum í stýrinefnd,“ segir ennfremur í svarinu.