Frumvarp um stjórnarskrárbreytingar komið fram

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frumvarp til breytinga á stjórnarskránni hefur verið lagt fram á Alþingi, af Sigurði Inga Jóhannssyni forsætisráðherra, um náttúruvernd, umhverfisvernd og þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði kjósenda. Sigurður Ingi leggur frumvarpið fram í eigin nafni.

Frumvarpið er byggt á tillögum stjórnarskrárnefndar sem starfað hefur á kjörtímabilinu. Meðal annars er kveðið á um mikilvægi umhverfisverndar og að auðlindir náttúru Íslands, sem ekki eru háðar einkaeignarrétti, séu í eigu þjóðarinnar. Enginn geti fengið þessi gæði eða réttindi tengd þeim til eignar eða varanlegra afnota og aldrei megi selja þau eða veðsetja.

Þá er kveðið á um að 15% kosningarbærra manna geti krafist þess að nýstaðfest lög frá Alþingi verði borin undir þjóðina í almennri, leynilegri og bindandi atkvæðagreiðslu. Kröfuna beri að leggja fyrir ráðherra innan sex vikna frá birtingu laganna. Atkvæðagreiðslan færi þá fram í fyrsta lagi sex vikum og í síðasta lagi fjórum mánuðum eftir að staðfest krafa lægi fyrir.

Ekki er ljóst hvort frumvarpið nær fram að ganga fyrir boðaðar þingkosningar í haust en stjórnarandstaðan hefur bæði gert efnislegar athugsasemdir við það og enn fremur hvernig staðið hafi verið að vinnu við það.

Ekki er gert ráð fyrir að stjórnarskránni verði breytt í samræmi við bráðabirgðaákvæði um breytingar í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu heldur er stefnt að því að henni verði breytt með hefðbundnum hætti með samþykkt tveggja þinga og kosningum á milli þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert