Ágústmánuður mun fara í sögubækurnar sem einn hlýjasti ágúst síðan mælingar hófust.
Samkvæmt upplýsingum Trausta Jónssonar veðurfræðings er hitinn það sem af er mánuðinum ofan meðallags síðustu tíu ára á 105 veðurstöðvum af 115 á landinu sem meðaltöl eiga.
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 24 dagana í ágúst er 12,2 stig, 1,6 stigum ofan meðallags áranna 1961-1990 og 0,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Mánuðurinn er sá 5. hlýjasti á þessari öld og í 10. til 11. sæti á lista sem nær aftur til ársins 1872, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.