Salan á flugvallarsvæði var heimil

Reykjavíkurflugvöllur Horft er eftir hinni umdeildu NA/SV-flugbraut.
Reykjavíkurflugvöllur Horft er eftir hinni umdeildu NA/SV-flugbraut. Rax / Ragnar Axelsson

Fyrirhugað var að færa flugvallargirðingu við Reykjavíkurflugvöll nær flugbrautunum og í því ljósi var rétt hjá ríki og borg að orða samning sinn frá 2013 um uppbyggingu við Skerjafjörð þannig að ríkið myndi selja land utan flugvallargirðingu til borgarinnar. Þetta kemur fram í minnispunktum sem fjármálaráðherra lagði fyrir á ríkisstjórnarfundi í morgun, en undanfarið hefur verið deilt um heimild ríkisins til að selja umrætt land til borgarinnar.

Salan heyrði undir fjárlög 2013

Félagið Hjartað í Vatnsmýrinni vakti athygli á því fyrr í vikunni að salan hefði verið mistök og vísaði meðal annars til þess að í fjárlögum ársins 2013 hefði aðeins verið heimild til að selja land utan girðingar. Þá segja samtökin að salan hafi ekki farið í gegn fyrr en á þessu ári og ekki hafi verið heimild fyrir sölunni í fjárlögum þessa árs.

Í minnispunktum fjármálaráðuneytisins kemur fram að samkomulagið sem undirritað var árið 2013 hafi verið bindandi og án fyrirvara. Þá hafi heimildar verið aflað í fjárlögum. M.a. er vísað í dóm Hæstaréttar um lokun NA/SV brautarinnar þar sem ráðuneytið segir ljóst að hin eiginlega skuldbinding um sölu landsins hafi verið tekin árið 2013 við undirritun samningsins og heyri því undir fjárlög árið 2013 þar sem hún var heimiluð af Alþingi. Rangt hefði því verið að leita heimildar á ný fyrir sölu sama landsins síðar meir.

Skylda um sölu myndaðist árið 2013

Þá er vísað til þess að samkvæmt dómi Hæstaréttar um lokun NA/SV flugbrautarinnar hafi komið fram að í samkomulagi borgar og ríkis frá 2013 hafi myndast skyldur sem aðilar gengust undir, m.a. kaupsamningur um landið. „Ráða má af framangreindu að dómurinn álíti skuldbindingargildi samkomulagsins ótvírætt varðandi þá skyldu að gera kaupsamning og afsal á síðari stigum gegn greiðslu kaupverðs.  Hæstiréttur bendir á að þar sem samkomulagið sjálft sé ekki kaupsamningur í skilningi tilvitnaðra laga 40/2002, um fasteignakaup félli samkomulagið ekki niður innan tveggja mánaða eins og tilvitnað ákvæði mælir fyrir um varðandi kaupsamninga sem gerðir eru með fyrirvörum. Af lestri dómsins er erfitt að ætla annað en að Hæstiréttur telji samkomulagið um kaup á umræddu landsvæði, og sú skuldbinding sem í því fólst,  væri því í fullu gildi og bæri að efna þegar skilyrði væru uppfyllt,“ segir í minnispunktunum.

Bent er á að vandséð sé að ráðuneytið hafi getað vikist undan því að ganga frá afsali á landsvæðinu sem um ræðir með hliðsjón af fyrirliggjandi samkomulagi og dómi Hæstaréttar. „Ljóst er að ef ríkið hefði ákveðið að efna ekki umrætt samkomulag samkvæmt orðanna hljóðan hefði ríkið þar með vanefnt þær skuldbindingar sem það gekkst undir við undirritun þess og skapað sér þar með ábyrgð að lögum,“ segir í minnispunktunum.

Tekið fram í fjárlögum að færa ætti girðinguna

Í skýringum með heimildinni kom fram að færa ætti girðinguna: „Reykjavíkurborg hefur óskað eftir viðræðum við ríkið um kaup á því landi ríkisins sem losnar í Skerjafirði, við fyrirhugaða færslu á flugvallargirðingu vegna niðurlagningar Norðaustur/Suðvestur flugbrautar. Einnig hefur borgin óskað eftir viðræðum um aðrar minni spildur við Reykjavíkurflugvöll.“

Segir ráðuneytið ljóst af þessum skýringum að um sé að að ræða land ríkisins sem myndi losna við færslu á flugvallagirðingunni vegna niðurlagningar flugbrautarinnar. Þar af leiðandi lá skýrt fyrir til hvaða lands heimildin tæki til þegar hún var samþykkt af Alþingi og markmiðið með heimildinni.

Landið er um 7 hektarar undir suðurhluta flugvallarins og var söluverðið 440 milljónir.

Minnispunktar fjármála- og efnahagsráðuneytisins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert