Verður kosið um Evrópusambandið?

mbl.is/Hjörtur

Vandséð er að boðað verði til þjóðaratkvæðis um frekari skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili. Tveir stjórnmálaflokkar sem fulltrúa eiga á Alþingi vilja að slík þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, það er Píratar og Samfylkingin. Píratar hafa þó enga stefnu þegar kemur að inngöngu í sambandið á meðan Samfylkingin er henni hlynnt.

Björt framtíð er einnig hlynnt inngöngu í Evrópusambandið en hvergi í stefnu flokksins er þó kveðið á um að þjóðaratkvæði skuli fara fram um framhald málsins. Einungis um endanlegan samning komi til hans. Engu að síður lögðu þingmenn Bjartrar framtíðar fram þingsályktunartillögu á Alþingi fyrir helgi þess efnis að þjóðaratkvæði færi fram um framhaldið samhliða fyrirhuguðum þingkosningum í haust.

Viðreisn, sem ekki á fulltrúa á Alþingi, styður inngöngu í Evrópusambandið líkt og Samfylkingin og Björt framtíð og að þjóðaratkvæði fari fram um framhaldið. Fram kemur í stefnu flokksins að kjósa skuli um framhaldið eins fljótt og hægt er í bindandi atkvæðagreiðslu. Samkvæmt stefnu Pírata skal slíkt þjóðaratkvæði einnig vera bindandi.

Þrír flokkar hafna inngöngu í ESB

Vinstrihreyfingin - grænt framboð leggst gegn inngöngu í Evrópusambandið. Hvergi í stefnu flokksins er kveðið á um þjóðaratkvæði um það hvort taka eigi frekari skref í þá áttina. Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, hefur hins vegar sagt að flokkurinn myndi ekki leggjast gegn slíkri atkvæðagreiðslu. Málið væri hins vegar ekki einfalt.

Sjálfstæðisflokkurinn hafnar inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt stefnu flokksins. Tryggja verði hins vegar að frekari skref verði ekki tekin nema að undangengnu þjóðaratkvæði þar sem spurt verði hvort kjósendur vilji ganga í sambandið. Ljóst er af orðalaginu að flokkurinn hefur sjálfur ekki í hyggju að standa að slíkri kosningu.

Framsóknarflokkurinn leggst að sama skapi gegn inngöngu í Evrópusambandið og er hvergi kveðið á um það í ályktunum síðasta flokksþings flokksins að taka skuli frekari skref í þá átt með þjóðaratkvæðagreiðslu um framhaldið. Einungis er tekið fram að flokkurinn telji hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins.

Vilja bindandi kosningu um málið

Miðað við stefnu stjórnmálaflokkanna er aðeins einn flokkur með stefnu sem kemur heim og saman við þjóðaratkvæði um frekari skref í átt að Evrópusambandinu samhliða næstu þingkosningum, Samfylkingin. Ekki er kveðið á um slíkt í stefnu Bjartrar framtíðar þrátt fyrir að þingmenn hennar standi að slíkri þingsályktun.

Píratar og Viðreisn styðja þjóðaratkvæði um framhald málsins en setja það skilyrði að slík kosning skuli vera bindandi. Ekki er hins vegar hægt að halda bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim efnum nema að breyttri stjórnarskrá. Ekki stendur til að setja slíkt ákvæði í stjórnarskrána fyrir næstu þingkosningar og engar líkur á því.

VG er andvíg inngöngu í Evrópusambandið samkvæmt stefnu sinni og ljóst er að orðum Katrínar Jakobsdóttur, formanns flokksins, að hann mun ekki hafa frumkvæði að þjóðaratkvæði í þessum efnum enda ekki kveðið á um slíka atkvæðagreiðslu í stefnu hans. Katrín hefur enda tekið skýrt fram að ekki sé um forgangsmál að ræða.

Ólíklega kosið á næsta kjörtímabili

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafna inngöngu í Evrópusambandið og þar með öllum skrefum í þá átt. Sjálfstæðisflokkurinn gerir hins vegar þá kröfu að ekki verði farið lengra með málið nema þjóðin verði spurð hvort hún vilji ganga í sambandið. Ólíklegt er hins vegar að þannig verði spurt komi til þjóðaratkvæðis.

Hægt verður að breyta stjórnarskránni með þjóðaratkvæði og án þess að rjúfa þing og boða til kosninga út apríl á næsta ári samkvæmt bráðabirgðaákvæði í henni. Ólíklegt er hins vegar að ákvæðið verði nýtt í þessum efnum. Ekki síst þar sem Píratar eru því andvígir vegna skilyrðis í ákvæðinu um samþykkt 40% kosningabærra manna.

Eins og fram kemur í byrjun er því vandséð að þjóðaratkvæði fari fram um frekari skref í átt að inngöngu í Evrópusambandið á næsta kjörtímabili miðað við núverandi stefnu flokkanna. Til þess kæmi í fyrsta lagi á þar næsta kjörtímabili að því gefnu að áður yrði sett inn ákvæði í stjórnarskrána um bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert