Framboð Þorsteins og Pawels erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn

Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. mbl.is/Kristinn

Mögulegt framboð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur fyrir Viðreisn yrði sterkur leikur fyrir flokkinn. Þetta sagði Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, í Vikulokunum á Rás 1 í morgun, þar sem hann var meðal gesta.

Nokkuð hefur verið rætt um þann möguleika að Þorgerður Katrín, fyrrverandi menntamálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gangi til liðs við Viðreisn en Styrmir sagði að það þyrfti að koma í ljós.

Hann sagði að framboð Þorsteins Víglundssonar, fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, og stærðfræðingsins Pawel Bartoszek væru styrkur fyrir Viðreisn og sagði að þau yrðu erfið fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Styrmir sagði hins vegar að í ljós gæti komið í kosningabaráttunni að fólk innan Viðreisnar hefði ólíkar skoðanir en framboðið væri augljóslega sterk áskorun fyrir þá flokka sem fyrir væru.

Snýst ekki um gömlu flokkana eða hægri eða vinstri

Styrmir sagði mikla gerjun í samfélaginu, bæði hér og í Evrópu og Bandaríkjunum. Hann sagði mikla undiröldu á ferð en átökin snerust ekki um gömlu flokkana, hægri eða vinstri, frjálsyndi eða ekki frjálslyndi.

Vitnaði hann í Robert Reich, vinnumálaráðherra í tíð Bills Clinton, og sagði skiptinguna í þjóðfélaginu þannig að öðrum megin væri gríðarlegur fjöldi en hinum megin fámennur hópur. Málið snerist ekki um pólitík heldur þessa fámennu hópa sem væru komnir í þá aðstöðu að stjórna heilu samfélögunum; embættismenn og aðra áhrifamenn t.d.

Sagði Styrmir átökin snúast um að hinir mörgu þyldu ekki yfirráð hinna fáu.

Hann sagðist á því að það væri lýðræðishalli í Sjálfstæðisflokknum og sagði það úrelt kerfi að kallaður væri saman landsfundur sem kysi forystu flokksins. Hann sagði að allir flokksbundnir sjálfstæðismenn, miklu meiri fjöldi en þeir sem sæktu landsfund, ættu að kjósa forystuna og um stefnumörkun flokksins.

Þetta ætti einnig við um lífeyrissjóðina; þar byggju menn enn við það gamla kerfi að stjórn væri valin af vinnuveitenda- og launþegasamtökum en ekki af félagsmönnum sjálfum.

Erfitt að átta sig á stöðunni hjá Framsókn

Varðandi gerjun mála innan Framsóknarflokksins sagði Styrmir framsóknarmenn halda spilunum þétt að sér og að erfitt væri að meta stöðuna. Honum sýndist engu að síður á samþykktum kjördæmisfunda flokksins að það væri þrýstingur innan hans um formannskjör.

Það gæti leitt til endurkjörs Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hann nyti ákveðinnar samúðar meðal flokksfélaga sinna. Erfitt væri að átta sig á því hver færi fram gegn honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert