Eldflaug og sprengjukúla fundust skammt frá Bláfjallaafleggjaranum hjá Sandskeiði síðdegis í dag. Séraðgerða- og sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar fór þegar á staðinn og við nánari skoðun kom í ljós að um var að ræða annars vegar eldflaug sem margir þekkja undir nafninu bazooka og hins vegar sprengjukúlu.
Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni hafði vegfarandi samband um klukkan 17.30, en hann hafði fundið hlutina tvo, sem hann taldi vera sprengjur. Reyndust sprengjurnar vera frá síðari heimsstyrjöldinni en svæðið var notað sem æfingasvæði.
Eftir mat sprengjusérfræðinga á aðstæðum var ákveðið að loka þjóðvegi númer 1 og komu tveir lögreglubílar á svæðið til þessa. Eyddu sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar sprengjunum og eftir það opnaði lögreglan aftur fyrir umferð.
Í tilkynningu þakkar Landhelgisgæslan fyrir árvekni þessa vegfaranda. Hlutir sem þessir geti verið hættulegir og fólk eigi því ávallt að láta þá liggja óhreyfða og tilkynna tafarlaust um þá til Landhelgisgæslunnar.
Myndin að ofan er af eldflauginni og sú hér fyrir neðan af sprengjukúlunni.