Fyrrverandi forsætisráðherra svaraði aldrei lykilspurningum sem lúta að félaginu Wintris Inc. þrátt fyrir að hann hefði ítrekað verið spurður ítarlegra spurninga, að því er aðstandendur Kastljósumfjöllunarinnar fullyrða í yfirlýsingu. Orð eiginkonu hans í Morgunblaðinu í dag um annað séu því röng.
Anna Sigurlaug Pálsdóttir, eiginkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hélt því fram í viðtali við Morgunblaðið í dag að blaðamenn sem fjölluðu um aðkomu hans að félaginu Wintris hefðu fengið svör frá þeim hjónum við spurningum um félagið en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra upplýsinga við vinnslu þáttarins.
Í yfirlýsingu sem Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, og forsvarsmenn Kastljóss og sænska fréttaþáttarins Uppdrag Granskning skrifa undir, segir að fullyrðingar Önnu Sigurlaugar í Morgunblaðinu séu rangar.
Þvert á móti segja þeir að þáverandi forsætisráðherra hafi verið sendur ítarlegur spurningalisti. Við þeim spurningum hafi ekki fengist svör, þótt þær væru ítrekaðar.
„Lykilspurningum sem lúta að Wintris Inc. var því aldrei svarað,“ segir í yfirlýsingu fréttamannanna.
Aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs hafi vísað í bloggfærslu Sigmundar Davíðs og yfirlýsingu endurskoðunarfyrirtækisins KPMG. Hann hafi einnig sent blaðamönnum [þýska blaðsins] Süddeutsche Zeitung skjal sem svar við spurningalista þeirra, en því miður hafi ekki falist í því svör við þeim spurningum sem þar höfðu verið lagðar fram.
Í Kastljósþættinum hafi hins vegar endurtekið verið vísað í yfirlýsingar þeirra beggja og bloggfærslur, sem birtar voru í aðdraganda þáttarins. Sigmundi Davíð hafi að auki verið ítrekað boðið í viðtal um aðkomu sína að félaginu, sem hann þáði ekki.
Vísa fréttamenn Reykjavík Media, Kastljóss og Uppdrag Granskning enn fremur í fyrri yfirlýsingu sína frá því í júní. Þar höfnuðu þeir ásökunum Sigmundar Davíðs um að handrit að þættinum hefði verið tilbúið áður en hann kom í frægt viðtal. Honum hafi enn fremur ítrekað verið boðið að skýra mál sitt í viðtali sem hann hafi ekki þegið.