„Leið eins ég væri í rústabjörgun“

Kristján Þór Júlíusson.
Kristján Þór Júlíusson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á fyrstu dögunum mínum í ráðuneytinu leið mér eins og ég væri í rústabjörgun,“ sagði Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra í umræðuþættinum Sprengisandi hjá Heimi Karlssyni á Bylgjunni í morgun.

Benti hann á að fram að sínu kjörtímabili hafi heilbrigðisráðherra ekki setið nema brot úr kjörtímabili. „Ég tók því við hafsjó af hugmyndum í stað þess að taka við skipulögðu ráðuneyti eða málaflokki þar sem stefna hefur verið mörkuð til lengri tíma,“ sagði Kristján.

Lítil festa og öryggi í málaflokknum

Fyrsti hluti hans tíma í ráðuneytinu hafi því falist í að átta sig á stöðunni og skapa áætlun. „Ég reyndi að búa til ramma; skipulag til lengri tíma,“ sagði hann. „Við erum að sjá góð málefni fullnustast fram á þennan dag.“

Hann sagði það dapurt fyrir málaflokkinn hversu lítil festa og öryggi hafi verið í honum. „Grunnurinn til að mæta því er að hafa þokkalega sýn neglda niður til lengri tíma sem hægt er að vinna eftir. Þessi stefnumörkun sem ég er að fara að senda frá mér eftir mjög stuttan tíma fer í almenna umræðu svo fólk getur sent inn sínar athugasemdir,“ sagði hann og bætti við að hann myndi kynna hugmyndirnar innan nokkurra daga.

Lækka kostnað heimila í heilbrigðisþjónustu

Spurður að því hvernig gengið hefði með fyrirætlanir hans um betra heilbrigðiskerfi svaraði Kristján að það hefði gengið ágætlega. „Þetta samanstóð af nokkrum mismunandi verkefnum og ég einsetti mér að fara ekki í greiningarvinnu eða nefndarvinnu heldur nýta mér þá vinnu sem áður hafði verið unnin og var góð,“ sagði hann.

Þá hafi verið unnið að því hægt og bítandi að lækka kostnaðarhlutdeild heimilanna þegar kemur að heilbrigðisþjónustu. „Með þessari löggjöf er því marki náð að það verði sett þak á heilbrigðisútgjöld sjúklinga í íslensku heilbrigðiskerfi,“ sagði hann og bætti við að um gríðarlegt jafnréttismál væri að ræða. „Þetta mun taka gildi í byrjun næsta árs og þá eiga allir að vera til muna betur tryggðir en áður.“

Vega og meta rekstur sjúkrahótels

Þá vék Heimir að sjúkrahótelinu við Hringbraut og spurði Kristján út í rekstrarformið. „Ég nálgast þetta mál með algjörlega opnum huga,“ sagði hann en bætti við að starfshópur sem hann skipaði og vann skýrslu um reksturinn hefði lagt til þrjár tillögur sem ráðuneytið þurfi að taka afstöðu til. Sú fyrsta að Landspítalinn reki sjúkrahótelið, þá að um verði að ræða blandaðan rekstur eða loks að reksturinn verði boðinn út. „Þetta eru hlutir sem við erum að vega og meta,“ sagði hann.

Heimir spurði þá hvort orð forstjóra Landspítala um að reksturinn ætti að vera undir Landspítalanum, skiptu einhverju máli. „Orð allra skipta máli en ákvörðunin er ráðuneytisins og það verður að vera vel ígrundað hvaða stefnu við förum með það,“ sagði hann og bætti við að horft yrði til nágrannalanda í þeim efnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert