Ólöglegt og ómögulegt neteftirlit?

mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ólöf Nordal innanríkisráðherra kynnti á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku áform um að efla tölvubrotadeild lögreglunnar með því að fjölga stöðugildum og bæta tæknimenntun lögreglumanna sem sinna tölvuglæpum. Er það meðal tillagna nefndar sem hafði það hlutverk að gera úttekt á umfangi ólöglegrar dreifingar á netinu á höfundarréttarvörðu efni hér á landi og hvort íslensk lagaumgjörð veitti slíku efni nægjanlega vernd.

Í fréttatilkynningu frá innanríkisráðuneytinu segir að skylda eigi fjarskiptafyrirtæki til þess að upplýsa notendur vefsvæða skráarskiptiforrita um hugsanleg lögbrot, t.d. með viðvörun í svokölluðum pop-up glugga.

„Ég rak augun í þessa setningu frá innanríkisráðuneytinu. Hér þarf að stíga afar varlega til jarðar. Skapast getur hætta á því að fylgst sé með daglegu lífi fólks eða að upplýsingar um það séu skráðar. Ég sé engan mun á því að fylgjast með því hvert fólk fer og gerir á netinu og því á hvaða staði það fer og hvað það gerir utan netsins. Þetta kann því að vera verulegt inngrip í friðhelgi einkalífs fólks, sem er grundvallarmannréttindi sem varin eru bæði af stjórnarskrá og Mannréttindasáttmála Evrópu,“ segir Oddgeir Einarsson, hæstaréttarlögmaður og einn eiganda OPUS lögmanna, og bætir við að framkvæmdin minni óþægilega mikið á atvik úr skáldsögunni 1984.

„Til stendur að aðilum úti í bæ, fjarskiptafyrirtækjunum, verði gert að fylgjast með netferðum og senda aðvaranir til þeirra sem kynnu að vera að íhuga afbrot. Án þess að ætla að líkja þessu saman kom Hugsanalögreglan úr skáldsögunni 1984 upp í hugann við að sjá þessar tillögur. Aðalatriðið er að mínu mati að farið verði afar varlega og gætt að réttindum fólks við útfærsluna á þessu.“

Ekki rétt forgangsröð

Takmarkaðir fjármunir sem renna til löggæslumála í dag er betur varið í forvarnir og rannsóknir ofbeldisbrota að mati Oddgeirs í stað vafasams eftirlit með almenningi á netinu.

„Ég er almennt á því að ef lögreglan þurfi að forgangsraða eigi hún fyrst og fremst að leggja áherslu á ofbeldisbrot eins og heimilisofbeldi, kynferðisbrot og slík brot þar sem alvarleg brot á frelsi manna eiga sér stað,“ segir Oddgeir og bendir á að ekki sé einu sinni ráðrúm til að sinna þeim brotum.

„Nú þegar skortir á að lögreglan geti sinnt rannsóknum á ofbeldisbrotum af nægilegum þunga og hraða og ég hefði persónulega viljað sjá lögregluna eflda á því sviði fremur en öðrum. Án þess að ég vilji gera lítið úr því tjóni sem framleiðendur afþreyingarefnis geta orðið fyrir við brotum á höfundarétti tel ég ekki brýnasta úrlausnarefni lögreglu að setja á laggirnar sérstaka netbrotadeild.“

Tæknilega mögulegt

Sérfræðingar segja neteftirlit líkt og innanríkisráðuneytið leggur til mögulegt en erfitt án töluverðs inngrips í almennt eftirlit með netnotkun almennings.

„Vissulega er þetta tæknilega mögulegt og ég fagna því að efla eigi varnir, þ.e. viðbúnað og getu lögreglu til að taka á þeim sem valda ógnum og óöryggi á netinu. Hins vegar er óheppilegra að fara út í inngrip á notkun viðskiptavina. Bæði yrði það kostnaðarsamt fyrir fjarskiptafyrirtækin að fylgjast með allri umferð viðskiptavina, bæði innlendri og erlendri, og gæti hreinlega skemmt upplifun fólks,“ segir Guðbjörn Sverrir Hreinsson, öryggisstjóri Símans.

„Við mælum eingöngu netumferð eins og lög og skyldur segja til um en þarna gætum við hreinlega verið að hægja á umferð og valda villum. Eins má spyrja hver eigi að segja til um hvað sé lögleg skráraskiptasíða og hvaða síða er ólögleg?“

Samskipti dulkóðuð í dag

Heimasíður eru margar farnar að dulkóða samskipti með svokölluðum https-staðli. Þetta þýðir að þriðji aðili sem vill fylgjast með netnotkun fólks getur hvorki séð samskipti né breytt þeim. Hugmyndir um einhvers konar viðvörun verða þá að engu nema fjarskiptafyrirtæki geti komist framhjá slíkum vörnum.

„Við getum mögulega komist framhjá þessari dulkóðun en það eru hættur samhliða því, t.d. gætum við brotið samskiptin. Símtæki eru t.d. farin að vara fólk við ef sá möguleiki er fyrir hendi að einhver sé að hlusta á það.“

Guðbjörn bendir jafnframt á að þeir sem ætli sér að sækja efni á skráaskiptasíðum hafi gjarnan þekkingu til að komast hjá hvers konar vörnum. Óþægindi sem hvers konar neteftirlit hefur í för með sér gæti því bitnað mest á venjulegum notendum.

Á löglegan hátt

Hallgrímur Kristinsson, stjórnarfomaður FRÍSK - Félags rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, segir Dani hafa náð góðum árangri með pop-up viðvörunum á ólöglegum skráarskiptasíðum.

„Eignaréttur rétthafa efnis er óumdeildur og við verðum með einhverjum ráðum að vernda hann og við viljum að sjálfsögðu að það sé gert án þess að brjóta á friðhelgi fólks. Ég held að það sé tæknilega mögulegt og í það minnsta þess virði að skoða enda ekki hægt að láta þennan málaflokk óáreittan.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert