Segir Gústaf Níelsson vera ný-rasista

Gústaf Níelsson.
Gústaf Níelsson. mbl.is/Jim Smart

„Gústaf er ekki fórnarlamb í þessu máli. Fórnarlömbin eru börn múslima hér á Íslandi sem þurfa að lifa við þennan viðbjóðslega málflutning dag eftir dag,“ sagði Gunnar Waage, ritstjóri Sandkassans, í umræðuþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Þar mætti hann Gústafi Níelssyni sagnfræðingi og tókust þeir á um innflytjendamál. Heimir Karlsson stjórnaði þættinum. „Ef Gústaf heldur að málflutningur hans hafi ekki áhrif á börn og unglinga múslima er hann alvarlega illa áttaður,“ sagði Gunnar.

Segir Gústaf vera ný-rasista

Gunnar birti nýverið lista yfir „Íslenska ný-rasista“ en Gústaf er einn þeirra sem ratað hefur á listann. Í þættinum sagði Gunnar að Gústaf hefði lengi haldið uppi hatursfullum málflutningi í fjölmiðlum í garð innflytjenda, þá sérstaklega múslima, samkynhneigðra og jafnvel femínista. Því væri hann ný-rasisti samkvæmt skilgreiningu sem lögð er fram í skýrslu frá mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Lýsti hann ný-rasisma sem hvers kyns mismunun á grundvelli litarháttar, þjóðernis, trúar, uppruna og þjóðfélagsstöðu svo eitthvað sé nefnt. „Fólk er ekki á þessum lista vegna þess að mér líkar illa við það heldur vegna þess að ég máta það við þessa skilgreiningu,“ sagði Gunnar.

„Mas út í bláinn hjá blessuðum manninum“

„Þetta er mas út í bláinn hjá blessuðum manninum,“ sagði Gústaf og þvertók fyrir að hann tilheyrði einhverjum sérstökum hópi ný-rasista. Sagði hann að orðið ný-rasisti væri merkingalaus orðaleppur sem notað væri af fólki um fólk sem væri ósammála því. „Það er ekki boðlegt í alvarlegri þjóðmálaumræðu.“

Gústaf sagði það lýsa dómgreindarleysi Gunnars að hann skyldi útbúa lista sem þennan, „sérstaklega í ljósi ástandsins í Evrópu“. „Það er fjöldi fólks tekinn af lífi af handahófi á almannafæri. Maður hefur enga hugmynd um hvað svona listi gæti haft í för með sér,“ sagði Gústaf. „Öfgamennirnir rökræða ekki. Þeir bara skjóta og skrækja. Ég tel að svona listi geti verið hættulegur.“

Gunnar sagðist ekki hafa hugleitt að listinn gæti verið hættulegur og sagði Gústaf sjálfan þurfa að bera ábyrgð á orðum sínum. „Ég tek ekki ábyrgð á mannfjandlegum skoðunum fólks,“ sagði hann. Gústaf svaraði honum um hæl og sagði: „Þú ættir að skammast þín fyrir að setja saman svona lista.“

Vill hafa mann í hliðunum

Gústaf sagðist þó vissulega hafa um árabil tekið þátt í þjóðmálaumræðu hvað varðar „íslamsvæðingu Evrópu“. „Ég er einn af fjölmörgum mönnum sem hef verið að vara við þessari þróun og vara við því að Ísland lendi í sama pyttinum og skandínavískar þjóðir,“ sagði Gústaf.

Sagði hann „stjórnlausa hömlulausa fjölgun fólks sem fyrirlítur lifnaðarhætti okkar, vill ekki aðlagast og vill ekki fara að lögunum okkar“ vera áhyggjuefni.

„Ég vil hafa mann í hliðunum. Ég vil gæta heimilis míns,“ sagði Gústaf og bætti við að hann teldi múslima eiga erfitt með að skilja að hér á landi gildi íslensk lög. „Þeir eru alltaf hljóðlátir þar til þeir verða margir.“

„Maður sem er að valda íslensku þjóðfélagi skaða“

„Það sem ég er að segja er að við eigum að fara varlega í öllu. Ísland er 300 þúsund manna friðsælt og einsleitt samfélag. Hér þekkja allir alla. Svo koma stjórnmálamenn og segjast vera að byggja upp fjölmenningarsamfélag. Í Evrópu eru menn búnir að átta sig á því að fjölmenningarsamfélag gengur ekki upp. Þú myndar afkima í landinu. Það eru til að mynda 50-60 svæði í Svíþjóð þar sem lögregla hættir sér ekki einu sinni. Þá er ríkið ekki fullvalda lengur – ég vil ekki þessa þróun,“ sagði Gústaf. 

Þá sagði Gunnar að það væri út í hött hjá Gústafi að bera Ísland saman við skandínavísk lönd þar sem löndin ættu ekkert sameiginlegt. „Ísland á ekkert sameiginlegt með Danmörku og Svíþjóð hvað þetta varðar. Þetta eru lönd sem eru með galopið félagslegt kerfi, mun opnara velferðarkerfi en við og taka á móti mun meiri fjölda en við. Það er ekkert í farvatninu um slík áform svo það er bara verið að mála upp völvuspákonuvitleysu um að allt stefni hér í óefni.“

„Þú ert að hegða þér eins og Nostradamus og málar skrattann á vegginn,“ sagði Gunnar. „Ég er að tala við mann sem er að valda íslensku þjóðfélagi skaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert