Segir Gústaf Níelsson vera ný-rasista

Gústaf Níelsson.
Gústaf Níelsson. mbl.is/Jim Smart

„Gúst­af er ekki fórn­ar­lamb í þessu máli. Fórn­ar­lömb­in eru börn múslima hér á Íslandi sem þurfa að lifa við þenn­an viðbjóðslega mál­flutn­ing dag eft­ir dag,“ sagði Gunn­ar Waage, rit­stjóri Sand­kass­ans, í umræðuþætt­in­um Sprengisandi á Bylgj­unni í morg­un.

Þar mætti hann Gúst­afi Ní­els­syni sagn­fræðingi og tók­ust þeir á um inn­flytj­enda­mál. Heim­ir Karls­son stjórnaði þætt­in­um. „Ef Gúst­af held­ur að mál­flutn­ing­ur hans hafi ekki áhrif á börn og ung­linga múslima er hann al­var­lega illa áttaður,“ sagði Gunn­ar.

Seg­ir Gúst­af vera ný-ras­ista

Gunn­ar birti ný­verið lista yfir „Íslenska ný-ras­ista“ en Gúst­af er einn þeirra sem ratað hef­ur á list­ann. Í þætt­in­um sagði Gunn­ar að Gúst­af hefði lengi haldið uppi hat­urs­full­um mál­flutn­ingi í fjöl­miðlum í garð inn­flytj­enda, þá sér­stak­lega múslima, sam­kyn­hneigðra og jafn­vel femín­ista. Því væri hann ný-ras­isti sam­kvæmt skil­grein­ingu sem lögð er fram í skýrslu frá mann­rétt­inda­skrif­stofu Reykja­vík­ur­borg­ar.

Lýsti hann ný-ras­isma sem hvers kyns mis­mun­un á grund­velli litar­hátt­ar, þjóðern­is, trú­ar, upp­runa og þjóðfé­lags­stöðu svo eitt­hvað sé nefnt. „Fólk er ekki á þess­um lista vegna þess að mér lík­ar illa við það held­ur vegna þess að ég máta það við þessa skil­grein­ingu,“ sagði Gunn­ar.

„Mas út í blá­inn hjá blessuðum mann­in­um“

„Þetta er mas út í blá­inn hjá blessuðum mann­in­um,“ sagði Gúst­af og þver­tók fyr­ir að hann til­heyrði ein­hverj­um sér­stök­um hópi ný-ras­ista. Sagði hann að orðið ný-ras­isti væri merk­inga­laus orðal­epp­ur sem notað væri af fólki um fólk sem væri ósam­mála því. „Það er ekki boðlegt í al­var­legri þjóðmá­laum­ræðu.“

Gúst­af sagði það lýsa dómgreind­ar­leysi Gunn­ars að hann skyldi út­búa lista sem þenn­an, „sér­stak­lega í ljósi ástands­ins í Evr­ópu“. „Það er fjöldi fólks tek­inn af lífi af handa­hófi á al­manna­færi. Maður hef­ur enga hug­mynd um hvað svona listi gæti haft í för með sér,“ sagði Gúst­af. „Öfga­menn­irn­ir rök­ræða ekki. Þeir bara skjóta og skrækja. Ég tel að svona listi geti verið hættu­leg­ur.“

Gunn­ar sagðist ekki hafa hug­leitt að list­inn gæti verið hættu­leg­ur og sagði Gúst­af sjálf­an þurfa að bera ábyrgð á orðum sín­um. „Ég tek ekki ábyrgð á mann­fjand­leg­um skoðunum fólks,“ sagði hann. Gúst­af svaraði hon­um um hæl og sagði: „Þú ætt­ir að skamm­ast þín fyr­ir að setja sam­an svona lista.“

Vill hafa mann í hliðunum

Gúst­af sagðist þó vissu­lega hafa um ára­bil tekið þátt í þjóðmá­laum­ræðu hvað varðar „íslam­svæðingu Evr­ópu“. „Ég er einn af fjöl­mörg­um mönn­um sem hef verið að vara við þess­ari þróun og vara við því að Ísland lendi í sama pytt­in­um og skandína­vísk­ar þjóðir,“ sagði Gúst­af.

Sagði hann „stjórn­lausa hömlu­lausa fjölg­un fólks sem fyr­ir­lít­ur lifnaðar­hætti okk­ar, vill ekki aðlag­ast og vill ekki fara að lög­un­um okk­ar“ vera áhyggju­efni.

„Ég vil hafa mann í hliðunum. Ég vil gæta heim­il­is míns,“ sagði Gúst­af og bætti við að hann teldi múslima eiga erfitt með að skilja að hér á landi gildi ís­lensk lög. „Þeir eru alltaf hljóðlát­ir þar til þeir verða marg­ir.“

„Maður sem er að valda ís­lensku þjóðfé­lagi skaða“

„Það sem ég er að segja er að við eig­um að fara var­lega í öllu. Ísland er 300 þúsund manna friðsælt og eins­leitt sam­fé­lag. Hér þekkja all­ir alla. Svo koma stjórn­mála­menn og segj­ast vera að byggja upp fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag. Í Evr­ópu eru menn bún­ir að átta sig á því að fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag geng­ur ekki upp. Þú mynd­ar af­kima í land­inu. Það eru til að mynda 50-60 svæði í Svíþjóð þar sem lög­regla hætt­ir sér ekki einu sinni. Þá er ríkið ekki full­valda leng­ur – ég vil ekki þessa þróun,“ sagði Gúst­af. 

Þá sagði Gunn­ar að það væri út í hött hjá Gúst­afi að bera Ísland sam­an við skandína­vísk lönd þar sem lönd­in ættu ekk­ert sam­eig­in­legt. „Ísland á ekk­ert sam­eig­in­legt með Dan­mörku og Svíþjóð hvað þetta varðar. Þetta eru lönd sem eru með gal­opið fé­lags­legt kerfi, mun opn­ara vel­ferðar­kerfi en við og taka á móti mun meiri fjölda en við. Það er ekk­ert í far­vatn­inu um slík áform svo það er bara verið að mála upp völvu­spá­konu­vit­leysu um að allt stefni hér í óefni.“

„Þú ert að hegða þér eins og Nostra­da­mus og mál­ar skratt­ann á vegg­inn,“ sagði Gunn­ar. „Ég er að tala við mann sem er að valda ís­lensku þjóðfé­lagi skaða.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert