Fjármálaráðherra vísar því á bug að kaup skattrannsóknastjóra á gögnum um íslensk félög í skattaskjólum hafi dregist á langinn. Í svari Bjarna Benediktssonar við skriflegri fyrirspurn Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur, varaþingmanns Vinstri grænna, bendir hann á að átta mánuðir hafi liðið frá því að fjármálaráðuneytið hafi fengið vitneskju um gögnin þar til gengið hafði verið frá samningi um kaup á þeim, eða frá september 2014 til maí 2015.
Í svarinu er fjallað um aðkomu ráðherra að málinu og ferlið allt rakið. Segir þar að í september 2014 hafi skattrannsóknarstjóri sent ráðuneytinu tölvupóst ásamt minnisblaði þar sem fram hafi komið að erlendur einstaklingur hafi haft samband við skattrannsóknarstjóra símleiðis í mars 2014 og boðið embættinu upplýsingar til kaups er vörðuðu nálægt 500 aflandsfélög í eigu Íslendinga, m.a. skráð í Panama, Bresku Jómfrúaeyjum og Seychelles-eyjum.
Embættið fékk sýnishorn af 53 félögum í kjölfarið. Í framhaldi var efnt til fundar í fjármálaráðuneytinu 23. október 2014 þar sem m.a. var rætt um valdheimildir skattyfirvalda varðandi kaup á upplýsingunum.
Á fundinum kom fram að væntingar stæðu til þess að hægt væri að nálgast gögnin gegn árangurstengdri greiðslu. Fundinn sátu skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri, fjármála- og efnahagsráðherra, skrifstofustjóri skrifstofu skattamála og staðgengill hans, auk aðstoðarmanna ráðherra.
Fjármálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu í byrjun desember 2014 að skattrannsóknarstjóri hefði sjálfstæða skyldu til að leggja mat á virði eða mikilvægi gagnanna fyrir verkefni embættisins. Þó skyldi skattrannsóknarstjóri hafa eðlilegt samráð við ráðuneytið með því að gera fjármálaráðuneytinu viðvart um samningsfjárhæðina sjálfa með tilliti til nauðsynlegra fjárheimilda áður en skrifað yrði undir endanlegan samning milli aðila.
Í lok janúar sendi skattrannsóknarstjóri ráðuneytinu póst þar sem fram kom að seljandi gagnanna væri ekki reiðubúinn að semja við embættið um árangurstengdar greiðslur. Í bréfi ráðuneytisins hinn 10. febrúar kom það því á framfæri að vilji þess til að greiða fyrir kaupum á umræddum gögnum með viðeigandi fjárheimildum væri óbreyttur. Væri það áfram niðurstaða embættisins að upplýsingar þær sem í boði væru gætu komið að gagni við rannsóknir á skattaundanskotum.
Samningar náðust milli seljanda og skattrannsóknarstjóra um kaup á gögnunum í maí 2015 og var kaupverðið 200.000 evrur, eða liðlega 38 millj. kr., að viðbættum virðisaukaskatti og öðrum útlögðum kostnaði. Sú fjárhæð er langt undir þeirri fjárhæð sem seljandi krafðist í upphafi, en hún nam nálægt 200 millj. kr.
Í fyrirspurninni spurði Rósa Björk hvort í gögnunum hefði verið að finna félög tengd ráðherra, nátengdum aðilum eða öðrum ráðherrum. Í svarinu kom fram að ráðherra eða fjármálaráðuneytið hefðu ekki fengið neinar persónugreinanlegar upplýsingar um innihald gagnanna enda væri engin slík lagaheimild til staðar.
- Hafði sú staðreynd að ráðherra átti sjálfur aflandsfélag um tíma áhrif á afstöðu hans til kaupa á gögnunum?
„Frá því að umræða um kaup á umræddum gögnum hófst var það afstaða ráðherra að kaupa ætti gögnin ef það væri mat skattrannsóknarstjóra að gögnin gætu nýst embættinu. Er vísað til svars við 6. lið fyrirspurnarinnar þar sem fram kemur að ráðuneytið mundi hafa forgöngu um að afla þeirra fjárheimilda sem nauðsynlegar væru til að kaupin gætu átt sér stað.
Ráðherra fór fyrir ríkisstjórn með tillögu um að aflað yrði heimilda í fjáraukalögum til kaupa á gögnunum en það er í fyrsta skipti sem gögn af þessu tagi eru keypt af skattyfirvöldum í þágu skattrannsókna á Íslandi,“ segir í svarinu.