Aldrei kynnst viðlíka óheiðarleika

Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra.
Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

„Ég hef aldrei, aldrei, kynnst viðlíka óheiðarleika, virðingarleysi og lygum af hálfu fjölmiðlamanna gagnvart viðmælendum eða starfsfólki eins og SVT og Jóhannes Kristjánsson sýndu af sér í þessu tilfelli. Satt að segja á ég erfitt með að finna annað eins dæmi í lífi mínu almennt um fólk sem hefur sýnt af sér hegðun sem kemst í hálfkvisti við þetta.“

Þetta skrifar Jóhannes Þór Skúlason, aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, í ítarlegum pistli sem hann birti á heimasíðu sinni í dag. Þar er hann harðorður í garð íslenskra og sænskra fjölmiðlamanna, sem hann segir hafa beitt sig ítrekuðum blekkingum.

Stilla sjálfum sér upp með geislabaug og vængi og öðrum sem lygurum

„Á laugardaginn birtist enn ein yfirlýsingin frá Reykjavík Media, Kastljósi og fleirum þar sem undirritaðir stilla sjálfum sér upp með geislabaug og vængi og öðrum sem lygurum,“ segir Jóhannes Þór í upphafi pistilsins. Hann hafi hingað til ekki kosið að tjá sig um málið opinberlega en telji nú rétt að fara yfir samskipti sín við fjölmiðlafólk.

Jóhannes fjallar um samskipti sín við Jóhannes Kr. Kristjánsson hjá Reykjavík Media og sænska fjölmiðlamenn í aðdraganda umfjöllunar Kastljóss og sænska ríkissjónvarpsins í vor um tengsl Sigmundar Davíðs og eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, við Panamaskjölin. Viðtal við Sigmund Davíð, þar sem hann var spurður út í tengsl sín við aflandsfélagið Wintris, vakti heimsathygli en stuttu síðar sagði hann af sér sem forsætisráðherra.

Úr þættinum fræga sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu.
Úr þættinum fræga sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu. Skjáskot/SVT

„Allt í þessum samskiptum var lygi“

Jóhannes segir frá því að í byrjun mars hafi hann fengið símtöl og tölvupósta frá Jóhannesi Kr. þar sem óskað hafi verið eftir viðtali við forsætisráðherra fyrir sænska ríkissjónvarpið. „Jóhannes kynnti sig sem milligönguaðila og það staðfestu Svíarnir. Það var lygi.“

Í kjölfarið hafi Sven Bergman sent honum yfirlit um hvað SVT vildi ræða í viðtalinu. Þar hafi verið vel útlistað að þeir vildu fjalla um sænska húsnæðismarkaðinn og heyra um reynslu Íslendinga í því efni, uppbyggingu eftir efnahagshrunið og hversu vel Ísland væri búið undir aðra niðursveiflu. Þá hefðu þeir áhuga á að heyra af baráttu forsætisráðherra gegn Icesave og kröfuhöfum föllnu bankanna. „Allt í þessum samskiptum var líka lygi.“

Segir hann að í tæpar tvær vikur hafi allt það sem fram kom í símtölum, tölvupóstum og persónulegum samtölum við hann af hálfu þessara manna verið lygi. „Allt fram til þess að rétt í þann mund sem viðtalið var að hefjast sagði Jóhannes Kristjánsson við mig að fyrra bragði að það „væri ný reynsla fyrir sig að vera bara skrifta“ í svona viðtali.“

Taka ekkert mark á yfirlýsingum KPMG

Þá fullyrðir hann að óheiðarleikinn hafi haldið áfram eftir að viðtalinu lauk. „Þá ræddi ég við þá báða, bað um skýringar á þessari hegðun (sem lítið var um) og óskaði skýrt eftir því að þeir hættu að mynda það samtal enda hafði ég ekki samþykkt að vera í mynd eða viðtali. Eftir að Bergman samþykkti það sá ég að myndatökumaður þeirra hélt áfram að mynda og ég þurfti að krefjast þess sérstaklega til að hann hætti loks, mjög fýldur á svip, eins og ég hefði tekið af honum sleikjó.“

Jóhannes segist aldrei hafa upplifað vinnubrögð sem þessi, þrátt fyrir að hafa farið í og skipulagt mörg hundruð viðtöl við íslenska og erlenda fjölmiðla. Hann hafi í kjölfarið hringt í ritstjóra þáttarins, Nils Hanson, og lýst yfir óánægju sinni með „óheiðarleg vinnubrögð SVT“.

Í niðurlagi pistilsins segir Jóhannes að fólk sem vinni við stjórnmál sé ekki óskeikult. „Ég er það sannarlega ekki og geri fullt af mistökum sem ég reyni að læra af, biðjast afsökunar á og bæta mig,“ skrifar hann en bætir við að fólk sem vinni við fjölmiðla sé það ekki heldur.

„Þegar ég hef nefnt yfirlýsingu endurskoðenda KPMG um skattgreiðslur hef ég merkilega oft heyrt fréttamenn segja eitthvað á þá leið að það sé lítið mark takandi á því, ég verði að gera mér grein fyrir því að öll endurskoðendastéttin hafi beðið afhroð í hruninu. Það þykir mér nokkuð djörf staðhæfing.

Og mér hefur flogið í hug þegar þetta er nefnt við mig að ef þetta eru rökin sem fjölmiðlafólk tekur sér í munn til að afskrifa trúverðugleika heillar stéttar manna og neita að taka mark á því sem þeir senda frá sér, ættu þeir sömu mögulega að staldra við og líta í eigin barm og fletta upp köflunum um fjölmiðla í Rannsóknarskýrslu Alþingis um hrunið

Við höfum nefnilega öll gott af að bæta okkur,“ skrifar hann.

Hér má lesa pistilinn í heild.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert