Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, bauð strípalingi sem vanið hefur komu sína í Bollastein, listaverkið og vaðlaugina við Gróttu á Seltjarnarnesi, sundkort í sundlaug bæjarins en maðurinn særði blygðunarkennd einhverra bæjarbúa þegar hann baðaði sig í vaðlauginni flesta morgna.
Í Facebook-hóp íbúa Seltjarnarness hafa að undanförnu skapast umræður um ferðamenn á svæðinu í kringum Gróttu. Auk strípalinga í Bollasteini hafa einhverjir íbúanna kvartað undan ferðamönnum í tjöldum, en engin aðstaða er fyrir tjöld við Gróttu og þar bannað að tjalda.
Soffía Karlsdóttir, sviðsstjóri menningar- og samskiptasviðs Seltjarnarnesbæjar, segir að listaverkið Bollasteinn hafi fyrst og fremst verið hugsað sem laug til að dýfa tánum ofan í, sitja og njóta útsýnisins en einhverjir einstaklingar hafa verið staðnir að því að baða sig í pottinum eftir sjósund líkt og sá sem vanið hafði komu sína í pottinn daglega. Fastagesturinn hafnaði þó boði bæjarstjórans um sundkort í sundlaugina á Seltjarnarnesi en hann átti að eigin sögn kort í sundlaugina og hafði því lítil not fyrir annað.
„Það er erfitt að banna fólki að stinga sér ofan í listaverkið,“ segir Soffía. „En það varðar við lög að vera nakinn á almannafæri og það særir blygðunarkennd margra,“ bætir hún við en bæjaryfirvöld íhuguðu að setja upp merkingar með leiðbeiningum um notkun laugarinnar en að viðhöfðu samráði við listamanninn, Ólöfu Nordal, var horfið frá því.
Að sögn Soffíu er mikil traffík á Seltjarnarnesinu af ferðamönnum, sérstaklega við Gróttu. Hún segir að um daginn hafi fjórir hópar komið að Bollasteini á hálftímanum sem hún var við listaverkið, Íslendingar voru þá í meirihluta en komu m.a. úr Breiðholtinu og Kópavogi. „Það eru margir hópar sem koma hingað og nýta sér listaverkið,“ segir hún. „Það er að langstærstum hluta fjölskyldufólk eða hópar sem koma saman og eiga góða stund. Eins og ætlunin var með verkinu.“
Hún segir alltaf eitthvað um að tjaldað sé í Snoppu við Gróttu en lítil skilti á svæðinu segja til um að slíkt sé bannað. Þá er alltaf eitthvað um skoðunarferðir á rútum og alltaf eitthvert rennerí af rútum í norðurljósaferðum yfir vetrarmánuðina þegar ferðaþjónustufyrirtækin bjóða upp á slíkar ferðir.