„Menn eru búnir að bíða svo lengi eftir Kötlu að ég held að menn geti beðið í einhvern tíma í viðbót,“ segir Gunnar B. Guðmundsson, sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir að engin merki séu um kvikuhreyfingar við Kötlu þrátt fyrir jarðskjálftahrinu í Kötluöskjunni í nótt.
Frétt mbl.is: Jarðskjálftahrina í Kötluöskjunni
Skjálftahrinan hófst um klukkan hálf 12 í nótt norðarlega í Kötluöskjunni. Tveir jarðskjálftar mældust yfir fjórum stigum; sá fyrri, kl. 01:47:02, var 4,5 stig og sá seinni 20 sekúndum síðar 4,6 stig. Fáeinir skjálftar voru um þrjú stig. Skjálftarnir eru þeir stærstu í Mýrdalsjökli frá því að nútíma mælingar hófust.
Gunnar segir að tiltölulega rólegt hafi verið á þessum slóðum í dag en þó hafi verið eitthvað um minni skjálfta. „Það virðast enn vera eftirskjálftar en aðalhrinan var í nótt,“ segir Gunnar og bendir á að klukkan rúmlega hálf 12 í dag hafi mælst skjálfti upp á 2,5 stig og um klukkan 15 hafi mælst skjálfti um 3 stig.
En hvað þýðir þetta? „Það er erfitt að segja,“ segir Gunnar en bætir við að árið 2011 hafi komið sambærilegar hrinur á sömu slóðum. „Þá komu skjálftar í byrjun október sem voru um og yfir 4 stig. Þetta virðist vera svipað og var þá en það er ekkert hægt að spá áfram. Menn fylgjast bara með.“
Að sögn Gunnars hefur verið há rafleiðni í Múlakvísl en ekki mikið vatn. Hins vegar hafi verið viðvarandi leki úr einhverjum kötlum í sumar. Enginn hlaup- né eldgosaórói fylgi hins vegar þessum skjálftum. „Menn verða bara að fylgjast með hvort það verður eitthvert framhald. Fólk er á varðbergi fyrst eftir svona hrinur,“ segir hann og bætir við að sérfræðingar fylgist með allan sólarhringinn.
Síðasta stóra Kötlugos var árið 1918, fyrir 98 árum. Árið 1955 kom þó hlaup frá Mýrdalsjökli sem menn halda að hafi verið undan gosi undir jökli. Hlaupið var þó smávægilegt miðað við hlaup sem hafa myndast vegna gosa í Kötlu.