Ókyrrð, harkaleg lending eða mannleg mistök kunna að vera ástæður þess að neyðarsendir fór í gang í íslenskri flugvél sem var á leið til lendingar í Skagafirði í gær, með þeim afleiðingum að mikill viðbúnaður var virkjaður í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.
Þetta segir Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar, og kveður atvikið hafa verið tilkynnt Rannsóknarnefnd samgönguslysa sem skoði það frekar.
Flugvélar, skip og björgunarbátar í flugvélum og skipum eru með svo kallaða COSPAS-SARSAT-neyðarsenda, sem er alþjóðlegt neyðarsendakerfi. „Það þarf ekki annað en að vélin lendi í ókyrrð og þá geta neyðarsendarnir farið í gang, sömuleiðis við harkalega lendingu eða ef menn reka sig óvart í þá í flugstjórnarklefanum,“ segir Ásgrímur og kveðst þeirrar skoðunar að eitthvað af þessu hafi gerst.
Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð var virkjuð, björgunarsveitir kallaðar út og sömuleiðis áhafnir TF-SYN og TF-SIF eftir að neyðarboð hófu að berast um klukkan 16.30 í gær. Þá hafði Landhelgisgæslan samband við flugstjórnarmiðstöð, sem upplýsti að viðkomandi flugvél væri á flugi yfir Íslandi og áætlaði lendingu í Skagafirði tveimur og hálfum tíma síðar.
Ásgrímur segir að reynt hafi verið að hafa samband við flugvélina og síma flugmannsins þegar vitað var hver var þar á ferð, en ekki náðist samband við hann. „Það er hins vegar ekkert óeðlilegt við að ekki hafi náðst samband við flugmanninn, því ekki þarf annað til en að hann sé að fljúga inni í dal og sé því sambandslaus,“ segir hann.
„Það er ekkert hægt að gera annað en að bregðast við þessu og þegar það náðist samband við flugmanninn innan við klukkutíma áður en allt fór af stað þá voru menn bara fegnir að allt var í sóma.“
Ásgrímur segir neyðarsendi fara í gang um 120-130 sinnum á ári inni á leitar- og björgunarsvæði Íslands. „Sem betur fer er það síðan kannski ekki nema einu sinni á ári sem raunverulegrar björgunar er þörf. Oftast eru það harkalegar lendingar, skip að fá á sig brotsjó eða annað slíkt sem veldur því að neyðarsendirinn fer í gang,“ segir hann og bætir við að allar slíkar tilkynningar séu þó rannsakaðar.
Fyrir um áratug, áður en COSPAS-SARSAT-kerfið var endurnýjað skiptu tilkynningarnar hins vegar hundruðum og því hefur verulega dregið úr tilkynningum neyðarsenda með nýja kerfinu.