Aukin rafleiðni og mikil gasmengun hefur mælst í Múlakvísl dag. Þetta segir sérfræðingur á sviði jarðvár hjá Veðurstofu Íslands. Múlakvísl rennur úr Mýrdalsjökli, en þar var í dag talsverð skjálftahrina. Veðurstofan og Almannavarnir ríkislögreglustjóra hafa varað fólk við að staldra lengi við í nágrenni við ána vegna gasmengunarinnar.
Í sumar hefur rafleiðni í ánni verið nokkuð há og samkvæmt sérfræðingi var hún í hámarki síðustu mánaðamót. Eftir það fór hún lækkandi en hækkaði svo á ný frá 20. ágúst og er nú rétt fyrir neðan hámarkið sem var um síðustu mánaðamót. Aukin rafleiðni er vísbending um að meira jarðhitavatn sé í ánni og getur t.d. gefið fyrirheit um óróa eða flóð. Ekkert bendir hins vegar til að slíkt sé í gangi núna, en algengt er að jarðhitavatn renni í Múlakvísl með tilheyrandi rafleiðniaukningu og gasmengun.
Þá vara stofnanirnar einnig við því að mikið jökulvatn sé í Bláfjallakvísl sem rennur frá norðurhluta Mýrdalsjökuls. Ferðafólk er hvatt til að gæta varúðar og sýna aðgát þar sem vöð yfir ána gætu verið varhugaverð.