Í ágústmánuði í fyrra, eftir rigningarnar miklu í Siglufirði, var í ógáti mokað að stórum hluta yfir Álfkonustein sem þar er að finna neðarlega í Selgili á Hvanneyrarströndinni.
Þetta gerðist þegar starfsmenn verktakafyrirtækisins Báss hf. voru að hreinsa gríðarlegar aurskriður sem lent höfðu á veginum og talið er að hafi verið 10-12.000 rúmmetrar að umfangi og náð upp í miðja ljósastaura.
Þetta uppgötvaðist ekki fyrr en í enduðum júnímánuði síðastliðnum. Var þá Bæjarráði Fjallabyggðar gert viðvart og það sendi í kjölfarið beiðni til Vegagerðarinnar um að koma steininum til fyrra horfs. Var erindinu þar vel tekið. Í síðustu viku réðust menn svo í verkið, fyrst með gröfu og síðar með öflugri vatnsslöngu Slökkviliðs Fjallabyggðar, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.