„Sturlað að halda þessu áfram“

Ásta Guðrún Helgadóttir.
Ásta Guðrún Helgadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég held að það sé kominn tími til að rjúfa þing. Þetta er orðið frekar sorglegt, frekar dapurlegt. Mæting á nefndarfundi er liggur við ekki nein. Það er í rauninni alveg sturlað að halda þessu áfram með þessu móti,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, á Alþingi í dag í umræðum um störf þingsins þar sem hún kvartaði yfir verkefnaleysi þingsins.

„Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það hvernig þingstörfin hafa gengið undanfarnar vikur. Það hefur verið ákveðin tilvistarkreppa á Alþingi undanfarna daga og vikur. Maður veit ekki hvert maður er að stefna í raun og veru. Hérna erum við með hvert málið á fætur öðru, mál sem ýmist koma ný inn eða eiga víst að sofna í nefnd. Ég auglýsi hér með eftir því hver þau eru, þessi mikilvægu forgangsmál ríkisstjórnarinnar.“

Tímabært væri að hætta þingstörfum. „Hvenær megum við slútta þessu? Hvenær verður þetta búið? Það er ekkert að gerast hérna. Við stöndum bara hérna og reynum að þykjast halda uppi einhverju þingi. [...] Ég auglýsi eftir því að við fáum lokalista yfir þau mál sem ríkisstjórnin ætlar að klára og hættum þessu dangli. Það hafa allir eitthvað betra að gera en að þykjast vera að sinna einhverjum þingstörfum sem enginn hefur hvort eð er áhuga á að sinna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert