Afrísk börn gætu orðið 40% fátækra

Stærsti hluti fátækra á jörðinni gæti verið afrísk börn árið …
Stærsti hluti fátækra á jörðinni gæti verið afrísk börn árið 2030. AFP

Miðað við óbreytta þróun mun fimmtungur barna í Afríku búa við sárafátækt árið 2030 og verða þá 40% af öllum fátækum jarðarbúum samkvæmt niðurstöðum nýrrar skýrslu breskrar hugveitu. Það feli í sér hættu fyrir álfuna og tefli í tvísýnu heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Á sama tíma og aldurssamsetning þjóða einkennist af vaxandi fjölda aldraðra er Afríka eina álfan þar sem unga kynslóðin er fjölmennust, að því er kemur fram í Heimsljósi, veftímariti utanríkisráðuneytisins um þróunarmál.

Þar er sagt frá nýrri skýrslu breska fræðasetursins Overseas Development Institute (ODI) sem ber yfirskriftina „Barnafátækt, ójöfnuður og lýðfræði“.

Að mati skýrsluhöfunda felur þessi sérstaða Afríku í sér bæði tækifæri og hættur. Augljós tækifæri felist í því að virkja hæfileika unga fólksins sem hefði í för með sér auknar framfarir og betri lífskjör í álfunni en að sama skapi blasi við að óbreyttu mynd af fjölmennum hópi barna og ungmenna sem búi við sárafátækt. Það feli bæði í sér hættu fyrir álfuna og heimsmarkmiðin sem gera ráð fyrir að sárafátækt verði útrýmt fyrir árið 2030.

Í skýrslunni er hvatt til þess að stjórnvöld í Afríku og alþjóðasamfélagið fjárfesti í tækifærum fyrir ungu kynslóðina í Afríku. Tilgreind eru ýmis brýn atriði sem hafa jákvæð áhrif á þróun, þar á meðal gæðamenntun, betri kyn- og frjósemisþjónusta, jafnrétti kynjanna, ráðstafanir til að draga úr barnahjónaböndum og beinar peningagreiðslur til fjölskyldna fátækra barna.

Heimsljós, veftímarit utanríkisráðuneytisins um þróunarmál

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert