Bréf sem erlendur ferðamaður sendi til Íslands eftir dvöl sína hér á landi hefur farið eins og eldur í sinu um internetið að undanförnu og meðal annars birst á IMGUR og á samfélagssíðunni vinsælu Reddit, þar sem um 500 ummæli hafa verið skrifuð við færsluna.
Ferðamaðurinn sendi bréfið, sem átti að fara til bóndabæjarins Hóla skammt frá Búðardal, án þess að vita heimilisfangið.
Til að redda sér ákvað hann að teikna kort af staðsetningunni framan á bréfið og var teikningin svo vel úr garði að gerð að hún skilaði sér á áfangastað í mars síðastliðnum, eða til Rebeccu Cathrine Kaad Ostenfeld, bónda á Hólum.
Skessuhorn greindi upphaflega frá bréfinu í maí síðastliðnum og sögunni í kringum það.
Ostenfeld vakti einnig heimsathygli á netinu í lok árs 2014 eftir að mbl.is birti myndband sem hún tók í snarvitlausu veðri við Hóla.