Ofurhlaupari í fremstu röð

Ofurhlaupari. Þorbergur Ingi Jónsson kemur í mark í Mont Blanc-hlaupinu í Chamonix í Frakklandi.

Þorbergur Ingi Jónsson frá Neskaupstað varð í 9. sæti af tæplega 2.000 keppendum í Mont Blanc-fjallahlaupinu um helgina. „Þetta hlaup, sem er 101 kílómetri, er eitt þekktasta ofurhlaup heims og ég er mjög ánægður með árangurinn, þó að ég viti að ég get gert betur,“ segir Þorbergur, sem var 13 klukkutíma og þrjár mínútur á leiðinni.

Aðstæður voru erfiðar um liðna helgi, allt að 32 stiga hiti, hlaupið í mikilli hæð og um 6.100 m hækkun. Mt. Blanc-hlaupið er einkum á stígum á fjallatoppum og í fjallshlíðum í Ölpunum, á milli fjallaþorpa á Ítalíu, í Frakklandi og Sviss. Hlaupið hófst í Courmayeur á Ítalíu og því lauk í Chamonix í Frakklandi. Þorbergur tók fyrst þátt í þessari keppni í fyrra og lenti þá í 16. sæti en varð svo í 9. sæti í heimsmeistarakeppninni í Frakklandi í fyrra. „Þá var heildarhækkunin hlutfallslega svipuð og nú og því vissi ég að hverju ég gekk,“ segir helsti ofurhlaupari Íslands, en Þorbergur varð í 2. sæti í 53 km hlaupi í Sviss í júní sem leið.

Næst er það HM

Að sögn Þorbergs er mjög erfitt að hlaupa í mikilli hæð yfir sjávarmáli, en Mt. Blanc-hlaupið er lengi vel í 2.000 til 2.500 metra hæð og hann segir að það taki á. Það segir sig sjálft að erfitt er að hlaupa 100 km á jafnsléttu, hvað þá á fjallastígum. „Ekki síst andlega,“ segir hann. „Það koma oft mjög erfiðir kaflar inni á milli, en oftast í seinni hlutanum, þegar maður er orðinn orkutómur og vökvalaus.“ Hann segir að engu að síður komi gjarnan aukakraftur þegar á líður hlaupið. „Maður getur verið sterkari og liðið betur eftir 80 kílómetra í 100 kílómetra hlaupi heldur en eftir 40 kílómetra,“ segir hann. „Þetta er svo langt að það koma hæðir og lægðir.“

Á tímabili fékk Þorbergur klaka á drykkjarstöðvum til þess að kæla líkamann og hljóp með klaka á höfðinu vegna hitans. „Mamma og tengdamamma voru á hliðarlínunni og Eva, kærasta mín, var drykkjarstjóri,“ segir hann og bætir við að aðeins megi vera með einn aðstoðarmann á drykkjarstöð, fyrst eftir 56 km hlaup og síðan á tveimur næstu stöðvum.

Þorbergur á brautarmet í helstu ofurhlaupum hérlendis eins og t.d. í Laugavegshlaupinu og Esjuhlaupinu (þ.e. Mt. Esja Maraþon), auk þess sem hann varð Íslandsmeistari í hálfu maraþoni í ár. Næst á dagskrá er HM í Portúgal í lok október. „Að ná árangri þar er stóra markmið ársins,“ segir Þorbergur, en auk hans keppa Guðni Páll Pálsson og Örvar Steingrímsson fyrir hönd Íslands. „Níunda sætið í fyrra kom virkilega á óvart og það verður sterkt að vera á topp 20 þó að innst inni stefni ég á að ná betra sæti en síðast,“ segir ofurhlaupari ársins undanfarin þrjú ár.

Hlaupin eru mesta skemmtunin

Þorbergur æfði og lék fótbolta á yngri árum og fór fyrst í fjallahlaup, 28 km, þegar hann var 16 ára. Síðan tók hann eitt fjallahlaup á ári með fótboltanum en þegar hann var 22 ára sneri hann sér alfarið að hlaupum. „Það hentaði mér betur,“ rifjar hann upp, en fyrir um tveimur árum ákvað hann að einbeita sér að fjallahlaupum og sleppa götuhlaupum að mestu. „Ég fór í það sem mér þykir skemmtilegast að gera, að hlaupa utanvegar og langar vegalengdir.“

Fátt kemst að hjá Þorbergi annað en svefn, vinna, næring og hlaup. Hann flutti til Akureyrar 2012 og er véla- og orkutæknifræðingur hjá Marel, starfar sem vélhönnuður, en hleypur í frítímanum. „Ég æfi mig mikið í fjöllunum, hleyp á broddum í snjónum á veturna og nota hlaupabrettin og tröppurnar innandyra þegar mest ófærð er, auk þess sem ég fer talsvert í æfingabúðir erlendis á veturna til að losna við snjóinn og komast á fast undirlag.“ Hann segist gjarnan hlaupa tvisvar á dag, frá 10 km og upp í sex tíma í einu. „Stundum hleyp ég hátt í 40 til 50 kílómetra á æfingu.“ Sumir segðu að þetta væri ekkert líf en Þorbergur er á öðru máli. „Það er gaman að hlaupa í fallegri náttúru og uppi á fjöllum og það er gaman að ná árangri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert