Eftir einn mánuð tekur Viðar Stefánsson formlega við störfum sem prestur í Ofanleitissókn í Vestmannaeyjum. Þar með verður hann yngsti starfandi prestur landsins, en hann verður 27 ára síðar á þessu ári. Hann segist aldrei hafa verið hræddur við að taka að sér krefjandi verkefni, en Viðars bíður meðal annars umsjón með jarðarförum, hjónavígslur og fermingar.
Viðar flytur til Vestmannaeyja ásamt kærustu sinni Sóleyju Lindu Egilsdóttur. Hann lauk embættisprófi í guðfræði árið 2014, 24 ára gamall, og hafði þá þegar byrjað að sækja um embætti. Að hans mati var hann búinn að sækja um á heldur mörgum stöðum þegar hann loks fékk embættið í Vestmannaeyjum.
Hann var valinn af kjörnefnd, líkt og sr. Davíð Þór Jónsson sem nýlega hlaut embætti í Laugarneskirkju. Um er að ræða nýja útfærslu á reglum um val og veitingu prestsembætta sem samþykktar voru á síðasta kirkjuþingi. Ætla má að hún muni opna nýútskrifuðum guðfræðingum leið að embættum þjóðkirkjunnar.
Viðar verður vígður sem prestur 25. september. Hann hefur að undanförnu starfað sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ og býr í Reykjavík ásamt kærustu sinni. Aðspurður segir hann að þeim lítist báðum vel á að flytja til Vestmannaeyja.
„Ég og kærastan mín fórum til Eyja þegar umsóknarferlið var í gangi. Við fórum og kynntum okkur aðstæður, hittum prest og sóknarprest, fórum á flest söfn í Eyjum og fleira. Okkur leist ákaflega vel á þetta. Við vorum alltaf spennt fyrir þessu bæði tvö þegar ég nefndi við hana að þetta hefði verið auglýst.
Svo þegar við fórum til Eyja vorum við enn staðfastari í því að þetta var mjög spennandi og góður staður, gott samfélag og fólk sem heldur góðum tengslum við kirkjuna sína. Kirkjan hefur líka vissan sess í samfélaginu. Í svoleiðis umhverfi verður mjög gaman að þjóna og búa,“ segir Viðar.
Viðar segir að hann hafi ekki alltaf ætlað sér að verða prestur. „Mamma mín sagði nú reyndar einu sinni við mig að þegar ég var lítill hefði ég eiginlega talað í tóni,“ segir hann. Viðar lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Suðurlands.
„Það var fernt sem mig langaði til að læra; heimspeki, stjórnmálafræði, franska og guðfræði. Guðfræðin varð fyrir valinu af því að mér þótti þetta mjög spennandi nám. Þetta er nám sem kemur inn á mjög mörg svið. Þarna eru tungumál, sagnfræði, heimspeki, bókmenntafræði og auðvitað ýmsar praktísktar greinar gagnvart prestsstarfinu.
Þegar ég fór í guðfræðina var það aðallega vegna áhuga og eftir á að hyggja hafði ég prestsstarfið á bak við eyrað. Ég vissi alltaf að ef ég ætlaði í guðfræðina myndi ég fara embættisprófsleiðina til að hafa þennan möguleika seinna meir ef mig langaði til þess.
Þegar ég var í guðfræðinni rokkaði maður svona dálítið í afstöðu sinni hvort maður vildi vera prestur eða ekki. Maður fór alveg úr gallhörðu jái í gallhart nei. Og svo þegar leið á og ég fór í starfsþjálfun styrktist ég í þeirri afstöðu minni í að þetta langaði mig að taka mér fyrir hendur í lífinu,“ segir Viðar.
Hann segir að tengslin sem presturinn myndi við fólk í starfinu hafi heillað hann sérstaklega. „Hann er með fólki á erfiðum stundum og hann er líka með þeim á góðum stundum. Trúin sjálf og það sem hún boðar og viljinn til að boða hana er að sjálfsögðu líka drifkraftur,“ segir Viðar.
Sumir vina Viðars voru nokkuð hissa þegar hann tilkynnti að hann ætlaði að leggja guðfræðina fyrir sig. „Svo voru aðrir sem höfðu einhvern veginn fundið þetta á sér allan tímann. Langflestum fannst þetta mjög flott og studdu mig í þessu eins og venjulega,“ segir hann.
Prestar undir þrítugu eru sjaldséðir innan þjóðkirkjunnar. Viðar verður yngsti starfandi prestur landsins og næstur honum í aldri er sr. Þráinn Haraldsson, prestur á Akranesi, sem er 32 ára. 130 prestar starfa innan þjóðkirkjunnar og þar af eru tíu 36 ára og yngri. Fjórir prestar eru 33 ára og yngri.
Blaðamaður mbl.is veltir fyrir sér hvort Viðar hafi leitt hugann að því að sóknarbörnin muni ef til vill ekki taka hann alvarlega í ljósi ungs aldurs.
„Ef maður veitir ágæta þjónustu hverfur nú svoleiðis gjarnan. Ég man til dæmis eftir því að einhvern tíma var ég að ræða við samnemanda minn í deildinni sem var eldri kona. Aldur minn barst í tal og hún sagði við mig að henni þætti ég allt of ungur til að þjóna sem prestur, að ég þyrfti að afla mér reynslu. Þetta var nokkrum mínútum áður en ég flutti hugvekju í kapellu háskólans. Eftir það kom hún til mín og dró það allt til baka,“ segir Viðar.
„Auðvitað hugsar maður um þetta. Sumir vilja kannski fara frekar til kvenprests, aðrir vilja fara til karls, aðrir vilja fara til fólks á svipuðu aldursbili og svo er bara hellingur af fólki sem það skiptir í raun og veru engu máli, bara að það fái ágæta þjónustu. Það er það sem skiptir mestu máli og almennileg samskipti við hvern þann sem leitar til manns,“ segir hann.
Prestar þjóðkirkjunnar sjá meðal annars um útfarir, hjónavígslur, kistulagningar, fermingar og skírnir. Af nógu verður að taka í starfi Viðars.
„Ég hef aldrei verið hræddur við að taka að mér krefjandi verkefni og hef verið í krefjandi starfi, til dæmis sem áfengis- og vímuefnaráðgjafi hjá SÁÁ. Auðvitað er maður alveg búinn að ímynda sér nokkurn veginn í huganum hvernig þetta yrði í fyrsta skipti allt saman.
Ég fékk góða starfsþjálfun og tel nú að ég verði ekki mikið meira undirbúinn en ég er núna. Þetta er líka nokkuð sem allir prestar hafa einhverntíma tekið á í fyrsta sinn og verið dembt út í djúpu laugina. Hún hefur verið misdjúp fyrir ýmsa presta,“ segir Viðar.
Áður en Viðar var skipaður í embættið hafði hann sótt um víða. Hafði hann meðal annars sóst eftir embætti á Eyrarbakka, Reynivöllum, í Oddaprestakalli, Selfosskirkju, Grafarvogskirkju, Keflavíkurkirkju, Seljasókn, Glerárkirkju og Dalvíkurprestakalli.
Viðar segir að hann telji að hann hafi verið búinn að sækja um á heldur mörgum stöðum áður en hann loksins hlaut embætti.
„Ég byrjaði eiginlega að sækja um áður en ég útskrifaðist en þá sýndi ég fram á að það væri staðfest að ég væri að fara að útskrifast. Maður fór í viðtöl hér og þar á landinu en miðað við hvernig valkerfið var þá var það ekki hentugt fyrir okkur sem vorum nýútskrifuð og hvað þá ef við vorum eins og ég, ung og ekki með aðra menntun, hreinlega af því að árin leyfa það ekki,“ segir hann.
Kjörnefnd valdi Viðar í embættið en þetta er í annað skipti sem sú leið er farin. „Þessar nýju reglur munu auðvelda nýútskrifuðum guðfræðingum að fá embætti. Það rokkar nú svolíitið til í þessum reglum hvort það hallar á vígða eða óvígða. Miðað við hvernig kerfið var þegar ég var að sækja um fyrst hallaði mjög á okkur sem vorum óvígð. Nú hallar kannski eilítið á þá sem eru vígðir.
Við Davíð Þór erum þeir fyrstu sem ganga í gegnum þetta nýja kerfi. Það reyndist okkur vel. Ég held að við munum ekki finna kerfi þar sem hvorki hallar á vígða né óvígða en þetta er að minnsta kosti kerfið sem notað er í dag,“ segir Viðar.
„Ég hlakka mjög mikið til að hefja störf og er ákaflega þakklátur fyrir að þetta hafi orðið að veruleika. Þetta eru svo sannarlega mikil verðlaun fyrir mikla þolinmæði og ég hlakka til að takast á við þetta og þjóna samfélaginu úti í Eyjum.“