Stjórnarandstaðan gagnrýndi fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá í umræðum á Alþingi í dag og sagði að ekki hefði verið tekið nægt tillit til þeirra athugasemda sem stjórnarskrárnefnd hefði borist. Þá væri skýr krafa þjóðarinnar um að vinnu stjórnlagaráðs yrði að leggja til grundvallar.
Valgerður Bjarnadóttir, fulltrúi Samfylkingar í stjórnarskrárnefnd, sagði að Alþingi hefði ekki ráðið við það verkefni að endurskoða stjórnarskrána. Það hefði stjórnlagaráð hins vegar gert, og að 64% þátttakenda í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012 hefðu verið samþykk því að leggja þær tillögur til grundvallar. Lagði Valgerður áherslu á að stefna Samfylkingar væri sú að halda áfram með starf stjórnlagaráðs á næsta kjörtímabili.
Sagði hún sig ekki samþykka tillögunni þar sem of háir þröskuldar væru við þjóðaratkvæðagreiðslum, bæði hversu margir gætu krafist þeirra og þess hvaða málum mætti vísa í þjóðaratkvæði, en þar á meðal væru ýmis mál eins og mikilvægar þingsályktunartillögur. „Menn þykjast vera að opna fyrir þjóðaratkvæði, en útiloka um leið að þau mál sem umdeildust eru komist í þjóðaratkvæði. Þetta finnst mér hlægilegt, herra forseti.“
Valgerður sagði að gamaldags stjórnmál myndu ekki megna að breyta stjórnarskránni. Því þyrftu „nútímaleg öfl“ að sameinast um að halda áfram með vinnu síðasta kjörtímabils, og nefndi Valgerður sérstaklega nútímalegan mannréttindakafla, jafnan atkvæðisrétt allra landsmanna, persónukjör og upplýsingafrelsi og upplýsingarétt.
Í lokin sagði Valgerður að sér þætti yfirþyrmandi það viðhorf að smíði stjórnarskrár væri verkefni lögfræðinga og annarra í akademísku elítunni. Þolinmæði sín fyrir því væri allt að því þorrin. Stjórnarskráin væri vissulega grunnlög en ákvæði hennar þyrftu að vera á mannamáli og ákvæði hennar að endurspegla „þjóðarsálina“. Leyfði hún sér því að velta því fyrir sér hvort ekki væri betra að kalla listamenn til þeirra verka, þar sem þeir væru næmari á mannlegt eðli en lögfræðingar. Stjórnlagaráð hefði náð að fanga þann anda og því þyrfti að byggja á þeim grunni.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna og fulltrúi í stjórnarskrárnefndinni, tók næst til máls. Tók hún að mestu í sama streng og Valgerður, og lagði áherslu á að ætlunin með stjórnlagaráði hefði verið að gefa fólkinu í landinu tækifæri til þess að hafa áhrif á það ferli sem það væri að endurskoða stjórnarskrána. Það þyrfti því að vera trútt þeim grunni, og það væri stefna VG.
Katrín sagði að það væru sér vonbrigði hvað vinnan hefði gengið hægt í stjórnarskrárnefndinni, en um fimmtíu fundir voru haldnir í nefndinni. Hefði Katrín viljað að vinnan við nefndina hefði gengið það vel að hægt hefði verið að nýta bráðabirgðaákvæði stjórnarskrárinnar og kjósa um þessi fjögur ákvæði samhliða forsetakosningunum í sumar.
Taldi Katrín að eina rétta leiðin til að breyta stjórnarskránni væri sú að þingið afgreiddi breytingartillögur og að svo myndi þjóðin taka afstöðu til þeirra. Núgildandi fyrirkomulag væri vonlaust að sínu viti og setti óþarfa pressu á þessar breytingar. Auk þess væri eðlilegt að þjóðin kæmi að samþykkt grundvallarlaganna.
Katrín gagnrýndi eins og Valgerður þá þröskulda sem settir hefðu verið á þjóðaratkvæðagreiðslur. Allir hefðu hins vegar þurft að gefa nokkuð eftir í þeirri vinnu. Hins vegar hefði ekki verið nægjanlegur vilji til þess að vinna úr þeim umsögnum sem nefndinni hefðu borist um tillögurnar. Hún nefndi sem dæmi að í umhverfisákvæðinu væru tvær af þremur stoðum Árósasáttmálans teknar inn en ekki sú þriðja, þrátt fyrir að margar umsagnir hefðu borist þess efnis.
Þannig hefði ekki náðst samstaða um endanlegan frágang þessara tillagna, og þótti Katrínu sem að eðlilegt hefði verið að ræða frekar ýmis atriði hinna nýju ákvæða sem þarna væru lagðar fram. „Ég tel að það hefði verið affarasælast, í ljósi þess að við erum á stuttu þingi og kosningar fram undan, að geyma þessar tillögur. Mér er til efs að þingið muni ná að ljúka umfjöllun um þau atriði sem út af standa sem þessari nefnd hefur ekki tekist á fimmtíu og fjórum fundum,“ sagði Katrín og lagði til að í staðinn yrði breytingaákvæði stjórnarskrárinnar breytt til samræmis við tillögur stjórnlagaráðs.
Aðrir stjórnarandstæðingar tjáðu sig einnig um efni frumvarpsins. Árni Páll Árnason, fyrrverandi formaður Samfylkingar, sagði margt gott í tillögunum og nefndi þar sérstaklega auðlindaákvæðið, sem væri betra en nokkuð það sem áður hefði verið lagt fram. Hann tók þó fram að menn þyrftu að virða þann vilja sem komið hefði fram í atkvæðagreiðslunni 20. október 2012. Menn þyrftu að spyrja sig hvernig þeir sæju fyrir sér að ljúka því ferli sem heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar væri.
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, var hins vegar mjög ósátt við ferlið sem stjórnarskrármálið hefði verið sett í og sagðist ekki hafa tekist betur til en svo að forsætisráðherra væri einn flutningsmaður að tillögunni. Fá þyrfti heildræna sýn, stjórnarskrá á mannamáli. Þetta væri hins vegar ekki leiðin. Þröskuldar þeir sem settir hefðu verið á þjóðaratkvæðagreiðslur í tillögunni væru til að mynda ólýðræðislegir að mati Feneyjanefndarinnar. Setja þyrfti því málið aftur í hendur þjóðarinnar; Alþingi væri ekki fært um að klára málið eins og það væri.
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók í svipaðan streng og Birgitta. Þröskuldarnir væru að hans mati „andlýðræðislegir“. Hann kallaði eftir því að umræðu um tillögu stjórnlagaráðs yrði lokið á næsta þingi, en sú umræða hefði ekki enn farið fram. Gagnrýndi Helgi ferlið sem stjórnarflokkarnir hefðu farið með málið í. „Herra forseti, þetta er engin málamiðlun!“