„Ég er sannfærður um að þetta sé rétta leiðin. Því fyrr sem þessu lýkur, þeim mun betra fyrir alla,“ sagði Paul Copley, forstjóri Kaupþings, í viðtali í Kastljósi í kvöld. Segir hann að bónusakerfi geti hraðað mjög þeirri vinnu sem þurfi að klára svo að Kaupþing geti heyrt sögunni til eins fljótt og auðið er.
Samkvæmt bónusakerfinu, sem samþykkt var á aðalfundi í fyrradag, munu meira en 30 starfsmenn Kaupþings ehf. skipta með sér að hámarki einum og hálfum milljarði króna. Bónusarnir hafa verið harðlega gagnrýndir, m.a. af Sigurði Inga Jóhannessyni forsætisráðherra. Hann sagði í sjónvarpsfréttum RÚV í gær að það væri taktlaust, og jafnvel siðlaust, að greiða kaupauka út úr fyrirtæki eða þrotabúi sem hér hefði orðið eftir hrunið og allur almenningur á Íslandi hefði liðið fyrir. Þá sagði Bjarni Benediktsson að bónusarnir „lyktuðu af sjálftöku“.
Copley sagði að honum þætti leitt hversu illa málið hefði komið fyrir Íslendinga, sem væru augljóslega enn að ná sér eftir hrun. Verkfæri sem þessi væru þó nauðsynleg til að klára vinnuna á sem stystum tíma, það þekkti hann vel úr starfi sínu sem skiptastjóri. „Þetta er mikill hvati til að reyna að ljúka verkinu hraðar en ella.“
Þóra spurði Copley þá út í það hvort starfsfólk Kaupþings gerði ekki sitt besta án þess að fá bónusa. Copley sagði þá að það væri ekki það sem hann ætti við, en hann teldi bónusana þó geta stytt tímann sem það tæki að ljúka málum Kaupþings. „Ég vil hvetja og efla starfslið til að vinna þetta eins hratt og hægt er.“
Þá benti Þóra á að með þessu væri verið að rífa húðina af nýgrónu sári. Copley kvaðst þá ekki standa á sama um viðbrögðin og sagði það alls ekki meininguna að reita Íslendinga til reiði. „Enginn myndi vilja framlengja lífdaga Kaupþings. Ég gerði þetta ekki til að reita fólk til reiði. Ég vildi ganga frá reytum Kaupþings eins hratt og hægt væri,“ sagði hann.
„Ég er mjög ánægður með starfsfólk mitt hér á Íslandi. Ég átti val um hvort ég réðist í verkið. Hluthafi minn spurði hvernig við ættum að fara að; Kaupþing þarf ekki að vera á Íslandi. Það er fyrirtæki utan um eigur sem flestar eru utanlands en ég sagði við hluthafana að sumt það fé sem þeir annars færu með til Bretlands eða Bandaríkjanna, eða hvar þeir hefðu aðstöðu, langaði mig að hafa á Íslandi til hvatningar íslenska starfsliðinu, svo að það ræki starf sitt sem best og sem fljótast,“ sagði Copley.
Þá lagði hann áherslu á að bónusgreiðslurnar væru ekki sjálftaka. „Allir starfsmennirnir njóta fyrirkomulagsins en enginn í stjórninni, ekki ég og næstráðandi minn,“ sagði hann. „Það ratar ekki einn eyrir í minn vasa.“