Ofbeldisbrotum fjölgaði á höfuðborgarsvæðinu í fyrra samkvæmt árskýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en embættinu bárust á annað þúsund tilkynninga um líkamsárásir. Breyttar áherslur lögreglunnar í heimilisofbeldismálum hafa þó einhver áhrif á afbrotatölfræðina.
Meiri háttar líkamsárásir voru um 150 talsins og er það ámóta fjöldi og árið á undan. Þar af leiddu tvær líkamsárásir til dauða, annars vegar í máli manns sem hafði orðið fyrir árás sambýliskonu sinnar í Hafnarfirði og hins vegar í alvarlegri líkamsárás í húsi við Miklubraut.
Minni háttar líkamsárásum fjölgaði þá mikið í fyrra, en í kringum 1.000 árásir voru skráðar 2015, eftir að hafa verið rétt innan við 700 árið á undan. Þessa miklu breytingu milli ára má þó rekja til breytinga í skráningu heimilisofbeldismála.
Hátt hlutfall ofbeldisbrota sem framin eru í miðborginni á sér hins vegar engar slíkar skýringar og hefur fjöldi þeirra haldist nokkuð jafn undanfarin ár.
Sé tölfræðin skoðuð yfir tímabilið frá 2007 til 2015 hefur ofbeldisbrotum í miðborginni fækkað um liðlega þriðjung, úr 534 brotum í 342. Ef tímabilið frá 2011 er hins vegar skoðað sést að brotafjöldinn hefur haldist nokkuð jafn á þeim tíma. Brotin eru um 300 að meðaltali á því tímabili, eða 25 kærur á mánuði, og eru flest brotanna framin á kvöldin og um helgar.
Við þessu hefur lögreglan reynt að sporna með sérstöku átaki er snýr að auknu sýnilegu eftirliti. Markmiðið er, að því er segir í skýrslunni, „m.a. að tryggja betra aðgengi að lögreglu og skemmri viðbragðstíma hennar og þar með að auka öryggi almennings á þessu svæði“.
Sérstök áhersla var því lögð á sýnileika og viðveru lögreglunnar í miðborginni um helgar og tók embætti ríkislögreglustjóra m.a. þátt í átakinu. Þannig var aukinn þungi settur í eftirlit lögreglu í miðborginni aðfaranótt laugardags og sunnudags milli kl. tvö og fimm, þar sem reynslan hefur sýnt að flest brotin eiga sér stað á þeim tíma.
Brotin eru misalvarleg með tilliti til meiðsla, allt frá minni háttar pústrum yfir í kýlingar og jafnvel spörk, og langflest eru þau tilviljanakennd og má rekja til ölvunar.
Í skýrslunni kemur fram að bæði lögregluliðin hafi verið sammála um „að verkefnið hefði gefist vel og árangurinn fælist ekki síður í þeim brotum sem var komið í veg fyrir með auknu, sýnilegu eftirliti á svæðinu“.