Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um þingsköp Alþingis fyrir 145. löggjafarþing, en þar kemur fram að þingið sé framlengt til 29. október, en þann dag séu áformaðar alþingiskosningar. Má af þessu ráða að forsætisráðherra staðfesti að kosningadagur verði 29. október.
„Þar sem fyrirhugaðar alþingiskosningar munu fara fram áður en kjörtímabil alþingismanna rennur út þarf að rjúfa þing á grundvelli 24. gr. stjórnarskrárinnar til að kalla fram kosningar. Tilkynning um þingrof felur í sér hina formlegu ákvörðun um kjördag. Skv. 24. gr. skulu alþingiskosningar fara fram innan 45 daga frá því að þingrof er tilkynnt. Samkvæmt þessu er fyrst hægt að tilkynna um þingrof 15. september nk. miðað við kjördag 29. október,“ segir í greinargerð með frumvarpinu.
Frumvarp um breytingu á þingsköpum Alþingis