Sparkaði mörgum aftur inn í skápinn

BDSM Ísland sótti fyrst um hagsmunaaðild að Samtökunum '78 fyrir …
BDSM Ísland sótti fyrst um hagsmunaaðild að Samtökunum '78 fyrir rúmum tveimur árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Það eru allir orðnir verulega þreyttir og leiðir á þessu. Menn vilja bara fá svör til að geta haldið áfram,“ segir Magnús Hákonarson, formaður BDSM á Íslandi, um andrúmsloftið innan félagsins í aðdraganda aðalfundar Samtakanna ’78 hinn 11. september nk. Þar verður kosið um hagsmunaaðild félagsins á nýjan leik.

Eins og fjallað hefur verið um hafa geisað miklar deilur innan Samtakanna ’78 undanfarna mánuði er lúta að hagsmunaaðild félagsins BDSM á Íslandi. Allstór hópur fólks gekk úr samtökunum í kjölfar deilnanna, en hart hefur verið tekist á um framtíð og stefnu þeirra.

Fundirnir ólögmætir vegna fundarboðs

Deilurnar hófust í kjölfar aðalfundar sem haldinn var 5. mars sl. Annar aðalfundur var haldinn 9. apríl en báðir fundirnir voru dæmdir ólögmætir. Helgaðist það af því að í lögum samtakanna kom fram að fundur yrði að vera boðaður bréfleiðis, en fyrri fundir höfðu verið boðaðir í gegnum tölvupóst. Til að fundurinn 11. september nk. yrði lögmætur þurfti því að senda póst heim að dyrum á alla þá sem skráðir eru í samtökin, og bjóða þeim á fundinn. Það hefur nú verið gert.

Var það hópurinn Velunnarar Samtakanna ’78 sem lét vinna fyrir sig lögfræðiálit og krafðist þess að boðað yrði til nýs aðalfundar á þessum grundvelli. Þar kom einnig fram að BDSM á Íslandi „ætti ekki sameiginlega lögmæta hagsmuni eins og þeir væru skilgreindir í lögum samtakanna og því hefði aldrei átt að leggja fram umsókn þeirra til atkvæðagreiðslu“.

Búið að hafa mjög slæm áhrif á starfið

Að sögn Magnúsar var markmiðið með umsókn um hagsmunaaðild það að auka samvinnu og styrkja samstarf félaganna í ljósi þess að Samtökin ’78 hafi verið regnhlífarsamtök fyrir hinseginfólk undanfarin ár. Nú er ferlið hins vegar búið að taka rúm tvö ár og segir Magnús að ljúka þurfi málinu.

„Þetta er búið að hafa mjög slæm á starfið. Það kemst ekkert annað að,“ segir hann og bætir við að félagsmenn hafi ekki orku til að vera lengur í óvissu. „Annaðhvort verða öll hinseginfélög landsins undir einni regnhlíf eða ekki.“

Magnús Hákonarson, formaður BDSM Ísland.
Magnús Hákonarson, formaður BDSM Ísland.

Starfið í lausu lofti undanfarna mánuði

Vegna ólögmætis fundanna hefur sitjandi stjórn og trúnaðarráð haft takmarkað umboð til að skuldbinda félagið og má því segja að starf samtakanna hafi verið í lausu lofti undanfarna mánuði.

Sitjandi stjórn mun bjóða sig fram aftur á fundinum 11. september, með nýjan formann í fararbroddi, en fjölmargir aðrir hyggjast einnig bjóða sig fram. Kristín Sævarsdóttir er á meðal þeirra sem bjóða sig fram gegn sitjandi stjórn, en hún skrifaði í pistli á vef Kvennablaðsins fyrr í vikunni, að hún væri ósátt við breyttar áherslur samtakanna og að þeim væri ekki ætlað að vera regnhlífarsamtök fyrir hinseginfélög.

Deilan snúist ekki um BDSM á Íslandi

Magnús segir deiluna hins vegar mun djúpstæðari en ósætti um aðild BDSM-félagsins. „Þetta er ágreiningur sem virðist hafa kraumað innan samtakanna í einhver ár um stefnu og markmið. BDSM á Íslandi er ekki aðili að þessari deilu. Hún snýst um framtíð samtakanna og það er samtakanna að ákveða hvernig hún verður,“ segir hann.

„Það góða sem kemur út úr þessu er umræðan sem hefur oft á tíðum verið góð. Fólk hefur misjafnar skoðanir og það er allt í lagi en það hafa líka komið mjög slæmar athugasemdir á alla kanta sem er mjög slæmt. En þessi deila snýst eiginlega ekkert um okkur þó að umsóknin okkar hafi komið þessu af stað.“

Þurfi að stoppa við og skoða málin betur

Meðal þeirra sem sögðu sig úr Samtökunum ’78 í kjölfar þess að BDSM var upprunalega veitt hagsmunaaðild í mars var Margrét Pála Ólafsdóttir, stofnandi Hjallastefnunnar. „Sam­tök­in '78 hafa lengst af verið mann­rétt­inda­sam­tök sem setja rétt­inda­bar­áttu og bar­áttu fyr­ir viður­kenn­ingu í fremsta sæti. Nú eru þau að stefna í að vera regn­hlíf­ar­sam­tök fyr­ir allskyns fjöl­breyti­leika sem get­ur verið frá­bært en ég segi fyr­ir mig að ef það er ekki sterk­ur meiri­hluti fyr­ir því að við séum að fara end­an­lega inn á þá braut þurf­um við að stoppa við og skoða mál­in bet­ur,“ sagði hún í sam­tali við mbl.is í apríl sl.

Hún sagði tvíþætta stefnu­breyt­ingu fel­ast í aðild­inni; ann­ars veg­ar að ákvörðunin hefði verið þvinguð fram með naum­um meiri­hluta og hins veg­ar að ekki ríkti ein­hug­ur um að BDSM-fólk yrði fyr­ir beinni mis­mun­um á grund­velli kyn­hneigðar.

Ekki eru allir sammála um framtíð Samtakanna '78.
Ekki eru allir sammála um framtíð Samtakanna '78. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Snýst ekki um það sem fólk gerir heldur það sem það er

Magnús segir hins vegar að umræðan um BDSM í tengslum við málið hafi ekki verið ólík umræðu um samkynhneigð fyrir 30 árum. „Alveg eins og sagt var um samkynhneigð þá er nú sagt að þú megir stunda BDSM á meðan enginn veit af því,“ segir Magnús. „Þú getur tekið umræðuna í dag um BDSM og fært hana 30 ár aftur í tímann og skipt út orðinu BDSM fyrir samkynhneigð og þá er deilan orðrétt sú sama.“

Hann segir að BDSM sé ekki lengur eitthvað sem fólk gerir, heldur eitthvað sem það er. „Þá erum við að tala um BDSM-hneigðina. Þetta er partur af „sexual identity“ fólks. Fólk fæðist með þessar kenndir og þær koma oft fram á unga aldri hjá krökkum.“

Magnús bendir á málefni hinseginfólks í Noregi þar sem BDSM er hluti af hinseginflórunni. „Við erum ekki að finna upp hjólið,“ segir hann og heldur áfram: „Svo er ekki eins og BDSM á Íslandi sé að sameinast samtökunum. Hagsmunaaðildin sem við vorum að sækja um veitir BDSM á Íslandi sæti áheyrnarfulltrúa í trúnaðarráði samtakanna. Við erum þá með málflutnings- og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt.“

Smala fólki á fundinn

Ljóst er að fundurinn 11. september nk. verður fjölmennur, og gera má ráð fyrir því að ekki verði allir sáttir við niðurstöðu hans. Ýmsar leiðir eru farnar til að hvetja félagsmenn til að mæta á fundinn, og segir Magnús að ákveðin smölun hafi átt sér stað. 

„Ef þú ferð á Facebook kemstu ekki hjá því að sjá að það er verið að smala,“ segir Magnús. „Sumir telja að tilgangurinn helgi meðalið en mér þykir þetta leitt. Þetta er afbökun á leikreglum lýðræðisins.“

Hefðu aldrei lagt fram umsókn ef þau hefðu vitað afleiðingarnar

En eru félagsmenn fullir eftirvæntingu fyrir fundinn? „Það er óneitanlega spenna. En hvort þetta fari vel í fólk eða illa veit maður ekki. Þetta hefur haft mjög slæm áhrif á marga. Þetta átti að vera skref í því að auðvelda fólki að koma út úr skápnum en eins og málin þróuðust þá sparkaði þetta mörgum einhver ár aftur inn í skápinn því miður,“ segir Magnús.

„Ef ég hefði vitað hvað þetta hefði í för með sér þá hefðum við líklega aldrei lagt umsóknina fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka