Eftir gosið í Eyjafjallajökli eru erlendir fjölmiðlar vakandi yfir hverjum þeim tíðindum sem berast af skjálftavirkni frá Íslandi og getgátum um hugsanlegt gos eða ekki gos. Þannig hefur skjálftavirknin í Kötlu undanfarið og umræður um að Katla sé ef til vill komin á tíma ratað í fréttir ytra og sumir fjölmiðlar færa hressilega í stílinn. Í einum stærsta fjölmiðli Danmerkur, Express, birtist flennistórum stöfum á vefsíðu blaðsins í gær; „FERÐAVIÐVÖRUN: Íslenska eldfjallið Katla á barmi þess að gjósa vekur upp áhyggjur af flugsamgöngum.“ Í fréttinni er sjónum einkum beint að Bretum sem þurfi að gjalda fyrir það ef ótti vísindamanna reynist réttur; Að Katla, nefnd eftir illu trölli, sé að fara að gjósa.
Í gærdag birti Daily Mail sams konar fyrirsögn, líka í hástöfum: „ÖSKUSKÝ – VIÐVÖRUN. Milljóna breskra ferðamanna bíður ferðaöngþveiti eftir viðvaranir um að íslenskt eldfjall sé að fara að gjósa.“ Svipuð frétt birtist á Sun og gula pressan tekur dýpst í árina og segir fólki hreinlega að hætta að ferðast til Íslands.
Aðrir fjölmiðlar, um allan heim, flytja líka fréttir um hugsanlegt Kötlugos þótt ferðaviðvaranir fylgi ekki og umfjöllunin sé hófstilltari. Engu að síður bregður þeim línum oft fyrir að líklegt sé að gos verði og viðbúnaðarstig sé.
En hvaða áhrif hefur þessi fréttaflutningur og er eitthvað hægt að gera þegar villandi fyrirsagnir og jafnvel ferðaviðvaranir birtast? Setur Íslandsstofa sig til dæmis í samband við einstaka fjölmiðla ef fyrirsagnirnar eru villandi?
„Við höfum ekki gert það hingað til. Það þarf að skoða það vel hvort það borgi sig að senda eitthvað að fyrra bragði því það getur líka vakið meiri umfjöllun. Þar sem skjálftavirkninni hefur verið að ljúka ákváðum við að senda enga yfirlýsingu að fyrra bragði eins og stendur en við fylgjumst samt vel með umfjölluninni og ef hún fer á flug grípum við til aðgerða,“ segir Sigríður Dögg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri á sviði ferðaþjónustu og skapandi greina hjá Íslandsstofu.
Sigríður Dögg segir allt öðruvísi umhorfs á Íslandi en þegar Eyjafjallajökull gaus, bæði hvað varðar ferðamannaiðnaðinn og þekkinguna til að bregðast við umfjöllun um Ísland.
„Það krísuástand sem skapaðist þá þjappaði okkur í ferðaþjónustunni betur saman og gerði það að verkum að við erum mun betur búin undir óvæntar aðstæður eins og eldgos. Við erum með aðgerðaáætlun og það yrði allt annað ástand.
Innviðir greinarinnar eru líka allt aðrir nú en þá, þar sem við erum með svo miklu fleiri ferðamenn og sterkari grein. Það yrði ekkert fát því við höfum lært af reynslunni.“
Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út um helgina.