Gunnar Bragi Sveinsson, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir að ummæli Arnars Páls Haukssonar, starfsmanns RÚV, á Fundi fólksins í dag sanna andúð stofnunarinnar á Framsóknarflokknum. Arnar lét óheppileg ummæli falla á fundinum um Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra þar sem hann kallaði Sigurð „feita.“
Einar Freyr Elínarson bendir fyrst á atvikið á Facebook og deildi Gunnar Bragi færslu hans. Sagði Gunnar Bragi að formaður flokksins hafi lengi þurft að þola andúð og að RÚV hafi leynt og ljóst unnið gegn honum. Nú þurfi varaformaður flokksins að þola „ótrúlegan dónaskap af hálfu miðils "allra" landsmanna,“ segir Gunnar Bragi.
Atvikið sem um ræðir kom sem fyrr segir upp á Fundi fólksins í dag, en þar er Arnar Páll að ræða við aðra stjórnmálamenn í pallborði um það hvar koma eigi Sigurði fyrir. Virðist hann ekki gera sér grein fyrir að kveikt er á upptöku sem var í beinni útsendingu á netinu. Spurði hann hina í pallborðinu „Hvar ætlið þið að láta þennan feita vera?“ en Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna spyr hann þá hvað hann vilji að þau sem eru í pallborði geri. Spyr hún hvar þingmaður Framsóknar eigi að vera og ítrekar Arnar Páll þá: „Ég segi hvar eigum við að koma honum fyrir, þessum feita.“
Samkvæmt frétt Vísis bað Arnar Páll Sigurð Inga afsökunar á atvikinu og sagði hann við Vísi að Sigurður Ingi hefði tekið afsökunarbeiðni hans vel. Sagði Arnar ummælin hrapaleg mistök.
Hlusta má á þessa uppákomu í meðfylgjandi myndbroti og eiga samskiptin sér stað þegar þrír klukkutímar og átján mínútur eru liðnar.