Úthverfabretar táruðust af gleði

Ljósmyndari mbl.is myndaði fyrstu norðurljós vetrarins á miðvikudaginn var.
Ljósmyndari mbl.is myndaði fyrstu norðurljós vetrarins á miðvikudaginn var. mbl.is/Golli

Ferðamennska tengd norðurljósunum er meðal þeirra þátta sem hafa lengt ferðamannatímabilið. Þúsundir ferðamanna fara í norðurljósaferðir dag hvern og segir Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions, ferðaskrifstofu Kynnisferða sem fóru í fyrstu norðurljósaferð vetrarins um síðustu helgi, að ferðamenn alls staðar að úr heiminum verði fyrir því sem líkja mætti við trúarlega upplifun þegar þeir berja norðurljósin augum.

„Ég hef meira að segja verið í ferð með grjóthörðum úthverfa-Bretum sem táruðust af gleði. Þetta er svo mikið sjónarspil þegar þú ert kominn langt út fyrir alla ljósmengun,” segir Einar á léttu nótunum.

Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions, ferðaskrifstofu Kynnisferða.
Einar Bárðarson, rekstrarstjóri Reykjavík Excursions, ferðaskrifstofu Kynnisferða. mbl.is/Ómar Óskarsson

Straumur ferðamanna hingað til lands hefur á liðnum árum aukist hlutfallslega meira yfir þá mánuði sem flokkast ekki til hásumars. Þannig fækkaði ferðamönnum um rúm 40 prósent á milli ágúst og september árið 2002 samanborið við 27 prósenta fækkun á síðasta ári skv. tölum Hagstofunnar.

Auk norðurljósaferða rútufyrirtækjanna er boðið upp á bátsferðir daglega frá Reykjavíkurhöfn til þess að skoða norðurljósin og ýmis fyrirtæki gera út einkatúra eða norðurljósaferðir á breyttum bílum.

Á þriðja tug bíla þegar mest lætur

Einar segir að þegar mest lætur fari Kynnisferðir með á þriðja tug bíla á einu kvöldi í norðurljósaferðir „en annars er ekki til neitt sem heitir eðlilegt kvöld í norðurljósum svo það getur verið allur gangur á þessu,” segir Einar en Kynnisferðir er í heildina með yfir 100 hópferðabíla. Tugþúsundir ferðamanna fóru með fyrirtækinu í norðurljósaferðir á síðasta ári, en farþegafjöldi fyrirtækisins árið 2015 í heildina, þ.e. í öllum túrum og ferðum Kynnisferða, voru 1,1 milljón talsins.

„Það hefur gengið mjög vel í ferðum okkar síðan við byrjuðum,” segir Einar spurður um árangurinn í fyrstu ferðum tímabilsins. „Borgarbúar hafa nú séð það síðustu tvö kvöld, stórkostleg ljós. Það er óhætt að segja að norðurljósatímabilið byrji með látum,” segir Einar. Hann segir þá ferðamenn sem hafa sótt í ferðirnar undanfarna daga vera svokallaða  sumargesti sem fái norðurljós síðla sumars í bónus. Eiginlegir norðurljósa-ferðamenn, sem koma hingað til lands í vetrarfríinu til að sjá norðurljósin, eru seinna á ferðinni. Frá októberbyrjun fram að páskum að sögn Einars.

Mikil þekking orðin til hjá starfsfólki fyrirtækisins

Að sögn Einars hefur orðið til mikil þekking innan fyrirtækisins. Á hverjum degi þurfi að meta veðurskilyrði, rýna í veðurspár og skoða gögn Geimvísindastofnunar Bandaríkjanna um sólgos sólarhringana á undan áður en haldið er á norðurljósaveiðar. „Hjá okkur er mikil reynsla og við höfum mikið af reyndum bílstjórum og reyndu fólki í þessu,” segir Einar. „Þegar menn koma að borðinu og ákveða hvert eigi að keyra og hvort það eigi að fara, þá eru árhundruð af samanlagðri reynslu sem koma saman við borðið,” segir Einar og bætir við að á endanum sé það sérþekking starfsfólksins sem nýtist þegar vega þurfi og meta hvert eigi að fara miðað við allar þessar upplýsingar.

Hann segir norðurljósin vera hentug upp á það að gera að Íslendingar séu flestir heima hjá sér, nýbúnir að horfa á sjónvarpsfréttir, þegar ferðamennirnir streyma á vegi landsins í von um að sjá norðurljósin. Þannig hafi þessi teg­und ferðamennsku sáralítil áhrif á nærsamfélagið.

Einar segir vert að halda því til haga að norðurljósin hafi ekkert með kulda að gera líkt og margir halda. „Hitastig er algjörlega óháð þessu, það sem menn kalla haust- og vorjafndægur er ekki síðra tímabil en hávetur. Við tengjum norðurljósin við myrkur og myrkrið við kulda,” segir Einar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert