Geta sagt stopp við bankakerfið

Andrés Jónsson, almannatengill.
Andrés Jónsson, almannatengill.

Íslend­ing­ar eru nú í þeirri stöðu að geta ákveðið hvernig þeir vilja hafa banka­kerfið í framtíðinni og sagt stopp við því að hrein kapí­talísk hugs­un og banka­kerfið sé alls­ráðandi í stjórn­kerf­inu hér á landi. Samt sem áður hef­ur eng­inn stjórn­mála­maður eða fram­bjóðandi fyr­ir þing­kosn­ing­arn­ar í haust komið með trú­verðuga stefnu í þess­um mál­efn­um. Þetta sagði Andrés Jóns­son al­manna­teng­ill í þætt­in­um Viku­lok­um á Rás 1 í dag.

Spunn­ust umræður út frá frétt­um um banka­bónusa síðustu tvær vik­urn­ar og ræddu gest­ir þátt­ar­ins um hvernig þing­menn hefðu brugðist við því. Þar hefði verið ein­stakt mál þar sem all­ir þing­menn hefðu verið sam­mála að tak­marka þyrfti slík­ar greiðslur og að þær væru ekki heil­brigð í sam­fé­lag­inu.

Voru gest­ir þátt­ar­ins ósam­mála um hvað gætu verið eðli­leg­ir kaupauk­ar og við hvaða tæki­færi slíkt væri eðli­legt. Rósa Björk Brynj­ólfs­dótt­ir, fram­kvæmda­stýra þing­flokks Vinstri grænna, sagði meðal ann­ars að hún teldi ekki eðli­legt að starfs­menn gætu fengið mikl­ar bón­us­greiðslur, en Karl Pét­ur Jóns­son al­manna­teng­ill benti á að hjá mörg­um sprota­fyr­ir­tækj­um væri staðan þannig að þau gætu ekki greitt háar upp­hæðir í laun til að byrja með og því fengju starfs­menn hlut í fyr­ir­tæk­inu. Með því gæti hagnaður þeirra seinna meir orðið mik­ill, eða þegar illa geng­ur að þeir fái mjög lítið fyr­ir vinn­una sína.

Þróuðust umræðurn­ar svo út í hvernig staða mála hefði verið hér fyr­ir hrun og sagði Andrés stjórn­völd þá hafa leitað til banka­manna og fjár­festa og þeir komið með hug­mynd­ir um hvernig haga ætti lög­gjöf. Þegar allt hafi fallið hafi þeir svo gagn­rýnt að eng­inn hafi stoppað þá. Sagði Andrés nú vera mögu­leika, í ljósi eign­ar rík­is­ins á stærst­um hluta banka­kerf­is­ins, til að setja skýr­ar leik­regl­ur til fram­búðar. Eng­inn fram­bjóðandi virt­ist hins veg­ar hafa trú­verðuga stefnu í þeim mál­um og lítið væri rætt um þetta mál.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert