Lögreglan stöðvaði för bifreiðar við Stakkahraun í Hafnarfirði skömmu fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Var ökumaðurinn látinn blása í öndunarsýnismæli og sýndi mælirinn 4 prómill en refsimörk eru 0,5 prómill. Maðurinn var látinn laus að lokinni sýnatöku en handtekinn skömmu síðar við Flatahraun þar sem hann lá ósjálfbjarga í götunni vegna ölvunar.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er maðurinn próflaus þar sem hann hafði áður verið sviptur ökuréttinum. Maðurinn gistir fangageymslu lögreglu og verður þar þangað til ástand hans lagast.
Á doktor.is er að finna lýsingu á því hvert sé ástand manneskju sem mælist með 4 prómill í blóði. Það þýðir að viðkomandi hefur drukkið 15-20 áfenga drykki og flestir hafa misst meðvitund. Áhrif á aksturshæfni: Meðvitundarlaus. Viðbragð takmarkað. Ökuhæfni engin - sofnaður - jafnvel dáinn.
Á fimmta tímanum reyndi lögregla að stöðva bifreið við Höfðabakka. Ökumaðurinn sinnti ekki stöðvunarmerkjum lögreglu og hófst því eftirför sem endaði með því að ökumaðurinn stöðvaði skömmu síðar. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur og aka sviptur ökuréttindum. Sextán ára gamall piltur var stöðvaður undir stýri bifreiðar við Vesturás um þrjú leytið í nótt. Drengurinn var undir áhrifum fíkniefna og eðlilega próflaus þar sem hann er ekki kominn á bílprófsaldur. Forráðamaður piltsins var fenginn á staðinn og málið tilkynnt til Barnaverndar.
Um hálf tólf leytið í gærkvöldi stöðvaði umferðardeild lögreglu bifreið á Sæbraut við Súðarvog eftir að bifreiðin hafði verið mæld á 102 km. hraða en leyfður umferðarhraði er þarna 60 km/klst. Ökumaðurinn reyndist sviptur ökuréttindum og hafði ekki öryggisbeltið spennt. Ökumaðurinn er grunaður um ölvun við akstur en blés undir refsimörkum.
Ölvaður ökumaður var stöðvaður á Langholtsveg um hálf eitt í nótt af lögreglunni og annar á Hafnarfjarðarvegi við Engidal rétt fyrir fjögur í nótt. Um kvöldmatarleytið var einn ölvaður ökumaður tekinn við Fífuhvammsveg í Kópavogi og um svipað leyti annar við Háholt í Mosfellsbæ.