Eyra vantaði eftir líkamsárás

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í nótt. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Tilkynnt var um líkamsárás í Hafnarstræti um fjögurleytið í nótt. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var eyra sagt vanta á árásarþola. Hann var fluttur með sjúkrabíl á slysadeild.

Árásarmaðurinn var í mjög annarlegu ástandi og var hann handtekinn á vettvangi og vistaður í fangageymslu.

Leigubílstjóri sleginn í höfuðið

Um hálffjögurleytið í nótt var tilkynnt um líkamsárás við Mýrargötu. Leigubílstjóri var sleginn í höfuðið og rúða var brotin í bifreiðinni. Það var par sem gerði árásina og var það farið af vettvangi þegar lögreglan kom. Leigubílstjórinn ætlaði að leita aðstoðar á slysadeild.

Árás við Alþingishúsið

Klukkan rétt rúmlega fjögur var tilkynnt um líkamsárás við Alþingishúsið. Ráðist var á mann, hann felldur og sleginn ítrekað með krepptum hnefa í andlitið. Árásarmaðurinn hljóp síðan á brott.

Um tvöleytið var ölvaður, ósjálfbjarga maður handtekinn í Bankastræti. Hann var vistaður í fangageymslu.

100 skráð atvik

Frá klukkan 17 í gær til 5 í nótt voru 100 skráð atvik hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Mikið var um tilkynningar tengdar hávaða, ölvun, slagsmálum, líkamsárásum, eignarspjöllum og fleiru.

Um sexleytið í gær voru stungin göt á öll fjögur dekk bifreiðar sem stóð í bílastæði við Brautarholt.

Skömmu áður var bifreið stöðvuð á Breiðholtsbraut. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og akstur án ökuréttinda.  Bifreiðin var ótryggð og voru skráningarmerki klippt af.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert