Niðursveiflunni í lífríki Mývatns er lokið og finnast nú litlir kúluskítshnoðrar, silungur veiðist að nýju, jafnvel bleikja sem hefur verið friðuð í nokkur ár, og flugan hefur angrað gesti sem aldrei fyrr.
Sveiflurnar í lífríki vatnsins eru þekktar en sú breyting sem vísindamenn rannsaka nú er að vatnið nær ekki að hreinsa sig og verða tært að nýju líkt og áður.
Árni Einarsson, forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn, segir í Morgunblaðinuí dag, að sveiflan í lífríki vatnsins sé þekkt en lægðin hafi verið djúp undanfarin tvö ár. „Þegar lífríki fer upp úr lægðinni er það innifalið að allt lifni við þó að kúluskíturinn sé ekki kominn í þeirri mynd sem við þekkjum. Hann var aldrei útdauður, það vissum við, en það sem fannst í vor var lítið og ekkert sem bendir til að sá stóri sé að koma aftur.“