Endurupptökunefnd fundar með settum ríkissaksóknara og lögmönnum vegna mögulegrar endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í dag. Davíð Þór Björgvinsson, settur saksóknari, segist gera ráð fyrir að um lokafund sé að ræða áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn í haust.
Tveir menn voru handteknir vegna málsins í sumar og þá eru nýjar upplýsingar sagðar koma fram um málin í tveimur nýjum bókum.
„Þetta er eitt af þeim atriðum sem þarf að fara yfir,“ segir Davíð Þór en að öðru leyti segir hann trúnað ríkja um efni fundarins í dag.
Nákvæm tímasetning á úrskurði endurupptökunefndar liggur ekki fyrir ennþá, að sögn Björns L. Bergssonar, formanns endurupptökunefndar, en áður hafi verið sagt að hann lægi fyrir í haust. Nefndarmenn muni ekki tjá sig frekar um efni fundarins í dag. Á honum gefist saksóknara og lögmönnum tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við nefndina.