Ný framkvæmdastjórn og ný landstjórn voru kosnar á landsfundi Ungra vinstri grænna (UVG) sem lauk um helgina á Akureyri. Þeir sem skipa framkvæmdastjórn eiga sæti í landstjórn ásamt sjö öðrum. Stjórn UGV er flöt og því enginn formaður, að því er kemur fram í tilkynningu.
Nýja framkvæmdastjórn skipa: Ragnar Auðun Árnason, talsmaður, Gyða Dröfn Hjaltadóttir, talskona, Bjarki Þór Grönfeldt, aðalritari, María Hjarðar, viðburðastýra, Aðalbjörn Jóhannsson, innrastarfsfulltrúi, Silja Snædal Pálsdóttir, alþjóðaritari, og Margrét Erla Þórsdóttir, ritstýra.
Nýja landstjórn skipa: Ívar Vincent Smárason, Sigrún Birna Steinarsdóttir, Jón Axel Sellgren, Anna Ragnarsdóttir Pedersen, Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, Ragnheiður Helga Blöndal og Klara Mist Pálsdóttir.
Í ályktun landsfundarins kemur fram að hann sé „forviða yfir þeim fasísku tilburðum og spillingu sem að ríkisstjórnin hefur leyft sér að hafa uppi. Þar má nefna mál sem hafa verið keyrð í gegn með ófullnægjandi hætti; til að mynda aldurstakmarkanir í framhaldsskólum, greinileg tengsl ríkisstjórnar við valdamikil hagsmunasamtök og ráðamenn sem hafa potað vinum og vandamönnum í ýmis störf og verkefni greidd af ríkissjóði,“ segir í ályktuninni.
„Toppnum var svo náð með birtingu Panamaskjalanna, þar sem í ljós kom að sitjandi ráðherrar áttu eða höfðu átt eignir í þekktum skattaskjólum.“
Í ályktuninni er áframhaldandi „eyðilegging“ í heilbrigðiskerfinu einnig hörmuð. „Með fjársvelti og niðurskurði hefur verið grafið undan því þannig að innviðir þess eru vart lengur standandi. Biðlistar og álag á starfsfólk Landspítala er óásættanlegt og líf sjúklinga er þar sett að veði.“
Landsfundurinn telur einnig að þörf sé á mikilli eflingu geðheilbrigðiskerfisins í landinu. Álagið sé mikið á geðlækna og biðlistarnir langir.
Einnig eru aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum gagnrýndar.
Landsfundurinn kveðst einnig vilja slíta stjórnmálasambandi við Bandaríkin, Rússland og Tyrkland sem hann segir „stuðla að ófriði í Sýrlandi og hagnast á hergagnaframleiðslu“.