Rök fyrir endurupptöku á máli Erlu

Frá fundi endurupptökunefndar í Hörpu í dag.
Frá fundi endurupptökunefndar í Hörpu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ríkissaksóknari hefur fallið frá fyrri afstöðu um að mál Erlu Bolladóttur skuli afgreitt á annan hátt en hinna sakborninganna í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum. Hann telur því að rök séu fyrir endurupptöku á máli Erlu. 

Þetta kom fram á fundi endurupptökunefndar með settum ríkissaksóknara og lögmönnum vegna mögulegrar endurupptöku málanna sem var haldinn í dag.

Davíð Þór Björg­vins­son, sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í Guðmund­ar- og Geirfinns­málunum, komst að þeirri niður­stöðu síðasta sum­ar að rök væru fyr­ir hendi í end­urupp­töku á máli þeirra sem dæmd­ir voru. Hann setti aftur á móti fyr­ir­vara um það hvort rök væru fyr­ir end­urupp­töku í máli Erlu.

Málið komið úr höndum lögmanna 

Ragnar Aðalsteinsson er lögmaður Erlu Bolla­dótt­ur og Guðjóns Skarp­héðins­son­ar sem voru bæði dæmd á sínum tíma. Hann er að vonum ánægður með niðurstöðu ríkissaksóknara. 

„Nú þarf nefndin ekki að glíma við þá andstöðu hans. Hún glímir bara við hennar mál til jafns við önnur,“ segir Ragnar.

Hann bætir við að fundurinn hafi gengið ágætlega og verið mjög upplýsandi. Endurupptökunefndin sé að spá í að ljúka málinu í október.

Þetta var lokafundurinn áður en nefndin kveður upp úrskurð sinn. „Nú er málið komið úr höndum okkar. Þetta er eingöngu í höndum nefndarinnar, sem mun kveða upp sínar niðurstöður,“ segir Ragnar. „Við getum ekki haft nein áhrif nema eitthvað komi skyndilega upp sem enginn veit um.“

Frétt mbl.is: Lokafundur um Guðmundar- og Geirfinnsmál  

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Rósa Braga

Fimm klukkustunda fundur 

Lúðvík Bergvinsson, lögmaður Tryggva Rúnars Leifssonar og afkomenda Sævars Ciesielski, segir að fundurinn í dag hafi verið mjög góður.  „Það var mjög gott að fá að tala við nefndina milliliðalaust um þau atriði sem hún er að velta fyrir sér. Það eru væntingar um að niðurstaða komi í þessum mánuði eða í síðasta lagi í næsta mánuði.“

Hann segir að fundurinn hafi tekið um fimm klukkustundir. Málflutningurinn laut að afmörkuðum þáttum sem nefndin var að skoða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert