Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur óskað eftir áliti frá Embætti landlæknis og Siðfræðistofnun Háskóla Íslands vegna tengsla Landspítalans við mál ítalska skurðlæknisins Paolo Macchiarini.
Hann framkvæmdi aðgerð á Karólínska sjúkrahúsinu árið 2011 þar sem plastbarki var græddur í Andemariam Teklesenbet Beyene. Beyene var á þessum tíma í meistaranámi í jarðeðlisfræði hér á landi og tengjast tveir íslenskir læknar aðgerðinni. Beyene lést tveimur árum eftir aðgerðina.
Sjá frétt mbl.is: Saksóknari rannsakar barkaígræðslu
„Okkur barst erindi frá heilbrigðisráðherra um hvort við sæjum forsendur fyrir því að þingið gengist fyrir rannsókn á málinu. Í kjölfarið fengum við ráðuneytið á okkar fund,“ segir Ögmundur Jónasson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, í samtali við mbl.is.
Fundurinn fór fram 12. ágúst þar sem fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins fóru yfir rökstuðning fyrir því hvort skipa ætti rannsóknarnefnd til þess að fara yfir hugsanlega aðkomu Íslendinga að svonefndu plastbarkamáli sem hefur verið til rannsóknar í Svíþjóð.
„Eftir þennan fund var sú ákvörðun tekin að við myndum vilja heyra sjónarmið landlæknisembættisins, sem hefur aðhalds- og eftirlitshlutverki að gegna gagnvart heilbrigðisþjónustunni. Einnig viljum við fá fund með Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þetta eru næstu skref okkar í málinu,“ segir Ögmundur.
Formlegum fundum hefur hins vegar ekki verið komið á. „Við höfum haft mjög mikið á okkar könnu á þessum haustdögum. Það hefur verið ákveðið að leita til þessara aðila og þeir munu koma á fund hjá okkur eins fljótt og kostur er,“ segir Ögmundur.
Sænsk stjórnvöld leystu í gær stjórn Karólínsku stofnunarinnar í Svíþjóð frá störfum eftir að rannsókn leiddi í ljós að hún hefði sýnt vanrækslu er hún réð skurðlækninn Paolo Macchiarini til starfa og leyfði honum að gera aðgerðir á sjúklingum. Þá hafa tveir fyrrverandi rektorar við Karólínska háskólann í Stokkhólmi verið reknir úr sænsku nóbelsnefndinni vegna tengsla þeirra við málið.
Ögmundur gat ekki tjáð sig um hvort nýlegar uppsagnir hefðu áhrif á ferli málsins hér á landi. „Við munum stíga varlega til jarðar í þessum málum en mjög markvisst.“