Snýst fyrst og fremst um krónutöluna

Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara.
Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Við sem félag þurfum núna einfaldlega að meta stöðuna og hvað sé hægt að gera,“ segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, í samtali við mbl.is en grunnskólakennarar felldu kjarasamning við Samband íslenskra sveitarfélaga í atkvæðagreiðslu sem lauk í gær. Þegar allt komi til alls snúist kjaradeilan um launatöluna. Þar standi hnífurinn í kúnni.

Þetta er í annað sinn sem grunnskólakennarar fella kjarasamning á þessu ári. Kjarasamningurinn sem felldur var nú gerði ráð fyrir 3,5% launahækkunum frá 1. ágúst, 3% hækkun á næsta ári og 3% á því þarnæsta. Ennfremur eingreiðslu upp á 35 þúsund krónur í upphafi samningsins og önnur eingreiðsla við lok samningsins upp á tæpar 52 þúsund krónur. Grunnskólakennarar hafa verið samningslausir síðan í maí en krafa þeirra hefur fyrts og fremst verið sú að fá sömu laun og sambærilegar stéttir með sambærilegt nám að baki.

Ólafur segir að fara þurfi djúpt og rækilega yfir málið. Meðal annars inn á við. Hvaða áhrif sú staða sem upp sé komin hafi áhrif á stöðu samninganefndar Félags grunnskólakennara og stjórn félagsins. Hann væntir þess að tekin verði ákvörðun síðar í vikunni um það hvernig brugðist verði við stöðunni.

„Við þurfum að einnig að skoða taktíkina gagnvart sveitarfélögunum og sveitarfélögin þurfa að skoða sína hlið. Hvers vegna er þetta stopp hjá okkur? Jú, það eru ákveðnar skýringar á því. Sama hvernig þú rekur svona mál þá endar það alltaf á peningum,“ segir hann ennfremur.

Ákveðið að láta reyna á samninga

Spurður hvort samninganefndin sé hugsanlega ekki í nógu góðu sambandi við félagsmenn segir Ólafur að farið hafi verið í nánari athugun í þeim efnum eftir að fyrri kjarasamningnum var hafnað. Skilaboðin frá grunnskólakennurum sé fyrst og fremst þau að launin séu ekki að hækka nógu mikið.

„Þegar samninganefnd stendur frammi fyrir því að viðsemjandinn segist ekki geta meira þá hefur hún tvo kosti. Annaðhvort að setja málið í atkvæðagreiðslu eða grípa til einhverra aðgerða,“ segir Ólafur. Ákveðið hafi verið að fara ekki í aðgerðir heldur láta reyna á samningana.

Aðspurður segir Ólafur höfnun samninganna vafalaust fela í sér einhverja gagnrýni í garð samninganefndar grunnskólakennara og ef samninganefndin kæmist að þeirri niðurstöðu að það væri best fyrir hagsmuni félagsmanna að hún færi frá myndi hún að sjálfsögðu skoða það.

Hann segist þó telja að gagnrýni grunnskólakennarar sé fyrst og fremst beint að því að sveitarfélögin vilji ekki leggja meiri fjármuni af mörkum til þess að leysa deiluna. Launin séu í raun aðalatriðið. Ef ánægja væri með launin myndi samningur tæplega stranda á öðrum málum.

Verkfall ekki fyrr en annað er fullreynt

„Þar stendur hnífurinn í kúnni. Fólkið okkar vill meiri breytingar á launaliðnum en sveitarfélögin vilja alls ekki semja um meira og þá erum við föst. Þetta er stóra málið. Launin eru of lág og þess vegna er allt annað undir,“ segir Ólafur.

Spurður að lokum hvort hugsanlega geti komið til verkfalls segir Ólafur að það sé alltaf möguleiki í kjaradeilum. Til þessa hafi þó verið samið.

„Við höfum valið að fara ekki átakaleiðir vegna þess að það hefur verið eitthvað að semja um. En það getur vel verið að við komumst á þann stað að við teljum að ekki séu fleiri leiðir færar. Þá gætum við þurft að endurskoða það. En það verður ekki fyrr en annað er fullreynt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert