Tillögu um ferðakostnað vísað frá

Kjartan Magnússon í ræðustól í borgarstjórn Reykjavíkur.
Kjartan Magnússon í ræðustól í borgarstjórn Reykjavíkur. mbl.is/Ómar Óskarsson

Meirihlutinn í borgarstjórn vísaði tillögu Kjartans Magnússonar, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um ferðakostnað frá á fundi í kvöld.

Af því tilefni settu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina fram bókun um málið.  

„Í átján mánuði hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins ítrekað lagt til að ákvarðanir um utanlandsferðir á vegum borgarinnar verði kynntar í viðkomandi nefndum og ráðum í því skyni að auka gagnsæi og aðhald við ráðstöfun almannafjár. Í jafnlangan tíma hafa fulltrúar Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna komið í veg fyrir að slíkar upplýsingar séu birtar með ótrúlegum undanbrögðum,“ segir í bókuninni.

Frétt mbl.is: Vill auka gagnsæi og eftirlit

„Þá hefur ekki enn borist svar við átta mánaða gamalli fyrirspurn Framsóknar- og flugvallavina um ferðakostnað borgarinnar árið 2015. Á borgarstjórnarfundi í kvöld kýs vinstri meirihlutinn enn að vísa á bug tillögu, sem augljóslega er til þess fallin að auka gagnsæi almennings og auðvelda eftirlit kjörinna fulltrúa með fjármálum borgarinnar. Þess í stað vísar meirihlutinn til tillögu um framlagningu ársfjórðungslegra lista yfir ferðakostnað, sem samþykkt var í borgarráði 18. júní 2015,“ segir einnig í bókuninni.

Þar kemur jafnframt fram að grundvallarmunur sé á upphaflegri tillögu Sjálfstæðisflokksins, sem geri ráð fyrir því að upplýst verði um viðkomandi kostnað fyrirfram og tillögu vinstri meirihlutans, sem geri ráð fyrir því að gerð verði grein fyrir kostnaðinum eftir á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert