Atvinnuveganefnd afgreiddi nú í hádeginu nýjan búvörusamning úr nefnd. Jón Gunnarsson, formaður atvinnuveganefndar, segir ákvæði um dýraníð hafa verið sett inn í samninginn í meðförum nefndarinnar, auk þess sem breytingar hafi verið gerðar ákvæði um innflutning á sérostum og dýpkað hafi verið á umhverfiskaflanum.
Jón gerir ráð fyrir að búvörusamningurinn fari til þriðju umræðu og afgreiðslu þings í næstu viku.
Hann segir að þær breytingar sem atvinnuveganefnd gerði á samningnum snúi m.a. að innflutningi á sérostum. Samkvæmt breytingum nefndarinnar verða þau 230 tonn af sérostum, sem innleiðing tollasamnings við ESB gerir ráð fyrir og sem gera átti fáanleg í þrepum á næstu fjórum árum, virk frá og með næstu áramótum.
„Síðan ítrekuðum við umhverfiskaflann, fórum dýpra í hann og tókum þar á ákveðnum atriðum,“ segir Jón. „Við nefnum að stefnt skuli að því að fara með umhverfismálin samkvæmt umhverfismati áætlana í þeim skrefum sem við erum að tala um að séu stigin á sviði umhverfismála í landbúnaði.“
Ákvæði um dýraníð var einnig bætt við búvörusamninginn í meðförum atvinnuveganefndar, en nokkuð hefur verið gagnrýnt í fjölmiðlum undanfarið að slíkt ákvæði hafi vantað.
„Í lögum um dýravernd hefur Matvælastofnun, sem eftirlitsaðili, mjög ríkar heimildir þegar kemur að dýraníði,“ segir hann og kveður um samspil laga um dýravernd og búvörulaga að ræða er kemur að dýraníði. „Við bætum við þeirri heimild Matvælastofnunar að svipta menn framlögum ef um er að ræða illa meðferð á dýrum og sviptingu leyfa á þeim grunni. Þannig að það er komið inn í lög.“
Jón segist telja að nefndin hafi verið einhuga um að bæta þessu atriðið við, þó minnihlutinn hafi verið með sérálit um búvörulögin að öðru leyti.