Fólkið í miðjunni er markhópurinn

Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

„Að sumu leyti er þetta áfall fyrir Sjálfstæðisflokkinn að fyrrverandi formaður og varaformaður flokksins hafi sagt skilið við hann. En það er augljóst að það sem skilur þarna á milli og ýtir undir þessa ákvörðun þeirra er óánægja með þá ákvörðun að aðildarviðræðum um ESB hafi verið slitið, það er stóra málið,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, dósent við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, fyrr­ver­andi vara­formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins og ráðherra, tilkynnti í dag um framboð sitt fyrir Viðreisn á Twitter-síðu sinni. Þar tók hún einnig fram að Þor­steinn Páls­son, fyrr­ver­andi formaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, ætli að ganga til liðs við Viðreisn.

Frétt mbl.is - Þorgerður og Þorsteinn til liðs við Viðreisn

Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla bæði fram fyrir …
Þorsteinn Pálsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir ætla bæði fram fyrir Viðreisn. mbl.is/Samsett mynd

Eftirspurn eftir einhverju nýju 

Stefanía segir þessa ákvörðun þeirra Þorgerðar Katrínar og Þorsteins ekki koma sér á óvart þar sem hún telji að Þorsteinn hafi verið viðloðandi Viðreisn frá upphafi flokksins. Hún segir tímann leiða það í ljós hvort þessi viðbót við flokkinn muni styrkja hann eða veikja. „Ég held að í huga margra kjósenda sem eru á miðju stjórnmálanna virðist vera ákveðið tómarúm og eftirspurn eftir einhverju nýju,“ segir Stefanía.

Frétt mbl.is: Ákvörðunin kom Bjarna á óvart

„Björt framtíð fór nokkuð hátt í skoðanakönnunum í aðdraganda síðustu kosninga 2013 og tók sjálfsagt eitthvað fylgi frá Samfylkingunni. Núna getum við sagt að það sé svipað upp á teningnum nema það að þetta er klofningur úr Sjálfstæðisflokknum," segir Stefanía og bætir við að nú sé markhópurinn fólkið í miðjunni sem til að mynda studdi Bjarta framtíð í síðustu kosningum, óánægðir kjósendur Samfylkingarinnar og Evrópusinnaðir sjálfstæðismenn.

Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar.
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þurfa að sannfæra kjósendur

Hún segir baráttuna í kosningum snúast um þetta lausa fylgi frá fólki sem er tilbúið til þess að kjósa mismunandi flokka en ljóst sé að eftirspurn sé eftir nýjum framboðum og fólki úr flokkum sem aldrei hafa komið að stjórn landsins.

„Eins og Þorgerður Katrín sagði sjálf í fréttum í kvöld þegar hún var spurð hvort það væri ekki erfitt að fara fram gegn Bjarna Benediktssyni þá sagði hún að það væri svo lítið sem skyldi þessi tvö framboð að. Þannig að vinnan verður að sannfæra kjósendur um að þetta sé ekki einn og sami hluturinn fyrir utan Evrópusambandsvinkilinn,“ segir Stefanía að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert