Keppir við ríkið um opnun bókhalds

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Ég held að miðað við það sem ég hef séð frá ríkinu þá erum við í kapphlaupi um hvort verður á undan að klára þetta ferli, svona í stuttu máli,“ segir Halldór Auðar Svansson, oddviti Pírata, aðspurður um stöðu tillögu þess efnis að opna stjórnkerfi og bókhald borgarinnar, sem var fyrst kynnt í sam­starfs­sátt­mál­a borgarstjórnar frá 2014.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, tilkynnti í gær á Strategíudeginum í Hörpu að unnið sé að því að gal­opna bók­hald rík­is­sjóðs, með því að gera alla reikn­inga rík­is­ins ra­f­ræna, í sam­starfi fjár­málaráðuneyt­is­ins og fjár­sýslu rík­is­ins.

Sjá frétt mbl.is: Unnið að því að galopna bókhald ríkisins

Hall­dór Auðar leiðir nýtt lýðræðis­verk­efni í borg­inni, sem formaður stjórn­kerf­is- og lýðræð­isráðs. Eitt af hlut­verkum ráðsins er að finna og þróa leiðir til að opna stjórn­kerfi og bók­hald borg­ar­inn­ar og auka þátt­töku íbúa í ákv­arðana­töku.

Að sögn Halldórs er búið að áætla tíma og fjármagni í það ferli að opna bókhald borgarinnar „Fjármálaskrifstofa er komin með aðgerðaráætlun um hvernig á að vinna þetta. Í nýju upplýsingastefnunni sem unnin var af stjórnkerfis- og lýðræðisráði í fyrra er kveðið á um opin gögn, þannig að stefnumótunin í þessum efnum er mjög skýr og þverpólitísk, þetta er bara spurning um hversu langan tíma tekur að framkvæma. Þetta hefur verið samþykkt af öllum flokkum og það liggur skýrt fyrir að þetta er stefna borgarinnar.

Næsta skref í ferlinu að sögn Halldórs Auðar er að opna rafræna þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar, sem mun taka til starfa innan tíðar. Megintilgangur þjónustumiðstöðvarinnar er að þróa og breyta framlínuþjónustu borgarinnar á þann veg að sjálfsafgreiðsla verði ávallt fyrsti valkostur borgarbúa þar sem því verður við komið.

Þá verður rafrænni þjónustumiðstöð falið að stuðla að opnun rafrænnar gagnagáttar um fjármál borgarinnar, utanumhald og eftirfylgni með opnun annarra ópersónugreinanlegra gagna og birtingu fundargerða og fylgigagna ráða og nefnda borgarinnar, í samræmi við upplýsingastefnu Reykjavíkurborgar og aðra samþykkta stefnumörkun um viðfangsefnin. Í upphafi er gert ráð fyrir fjórum stöðugildum innan einingarinnar, stjórnanda og þremur starfsmönnum, og einnig framlagi á fjárfestingaáætlun. Skrifstofa þjónustu og reksturs leitar nú eftir deildarstjóra rafrænnar þjónustumiðstöðvar.

„Þjónustumiðstöðin mun hafa það hlutverk að bera ábyrgð á opnun gagna almennt,“ segir Halldór Auðar.

Halldór Auðar Svansson, oddviti og borgarfulltrúi Pírata.
Halldór Auðar Svansson, oddviti og borgarfulltrúi Pírata.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert