Til greina kemur að stofna þverpólitískan starfshóp sem hefur það verkefni að skoða stöðu fjölmiðla á auglýsingamarkaði og skattaumhverfi þeirra.
Þetta sagði Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, í svari við fyrirspurn Helga Hjörvars, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, á Alþingi í dag.
Helgi spurði hvort Illugi væri tilbúinn til að beita sér fyrir því að gerðar verði breytingar á skattaumhverfi og stuðningsumhverfi fjölmiðla . „Það er verulegt áhyggjuefni hvernig tækniþróun og alþjóðleg samkeppni hefur verið að breyta rekstarumhverfi íslenskra fjölmiðla,“ sagði Helgi.
„Fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðisins. Sterkir og sjálfstæðir fjölmiðlar eru besta vopn okkar í baráttunni við spillingu. Einkareknir fjölmiðlar hafa kallað eftir því að Rúv dragi sig út af auglýsingamarkaði. Eina lausnin er að skapa öllum fjölmiðlum betri rekstararskilyrði þannig að allir fjölmiðlar búi við betri skilyrði en áður.“
Illugi kveðst hafa kallað til fundar við sig forystumenn ljósvakamiðlanna í sumar þar sem þeir hafi greint honum frá þeirri stöðu sem þeir telja að við þeim blasi.
„Hér er um að ræða flókna stöðu, m.a. hversu fyrirferðarmikið ríkið er á auglýsingamarkaði.“
Hann bætti við að hægt væri að nota næstu mánuði í að greina stöðuna betur og að þingið gæti skipað þverpólitískan starfshóp sem hafi þrjá mánuði til að skilgreina stöðuna.
„Ég efast ekki um að rekstararstaðan er orðin allt að því óbærileg hjá mörgum þeirra [fjölmiðlanna]. Við þurfum að horfa á alla miðlana, bæði stóra og smáa. Við þurfum á öflugum fjölmiðlum að halda og ég held að það sé þverpólitísk samstaða um þá skoðun.“