Vilja tryggja hagsmuni Íslands á norðurslóðum

Ráðherranefndin telur minnkun hafís á norðurslóðum fela í sér tækifæri …
Ráðherranefndin telur minnkun hafís á norðurslóðum fela í sér tækifæri til flutninga og auðlindanýtingar. mbl.is/RAX

Ísland á mikilla hagsmuna að gæta á norðurslóðum. Viðbúið er að hafís haldi áfram að minnka og svæðið verði áfram aðgengilegra fyrir vöru- og fólksflutningum, sem og gagnvart nýtingu auðlinda sem gnægð er af á norðurslóðum, að því er fram kemur í hagsmunamati ráðherranefndar um norðurslóðir.

Í skýrslunni Hagsmunir Íslands á norðurslóðum – tækifæri og áskoranir, sem kynnt var af fimm ráðherrum ríkisstjórnarinnar á 20 ára afmælisdagskrá Norðurskautsráðsins í Háskólanum á Akureyri nú eftir hádegi kemur fram að mikilvægt sé fyrir Ísland að þróunin á Norðurslóðum verði hagfelld og svæðið „einkennist áfram af stöðugleika, sjálfbærni og samvinnu.“

Þau Sigurður Ingi Jóhannesson forsætisráðherra, Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra, Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Ólöf Nordal innanríkisráðherra og Sigrún Magnúsdóttir umhverfis og auðlindaráðherra kynntu skýrslu ráðherranefndarinnar um norðurslóðir.  En markmiðið með útgáfu hagsmunamatsins er að kortleggja helstu hagsmuni Íslands á norðurslóðum, bæði alþjóðapólitísk og efnahagsleg tækifæri sem felast í þróun norðurslóða, sem og áskoranir þeim tengdum – einkum á sviði umhverfismála.

Hlýnun loftslags ekki eina breytan sem skiptir máli

Í skýrslunni er vakin athygli á að hlýnun loftslags sé helsta hreyfiafl þeirra breytinga sem nú eiga sér stað á norðurslóðum. „Viðbúið er að hafís haldi áfram að minnka og svæðið verði áfram aðgengilegra fyrir vöru- og fólksflutningum, sem og gagnvart nýtingu auðlinda sem gnægð er af á norðurslóðum og spurn eftir,“ segir í skýrslunni.

Hlýnun loftslags er þó sögð vera fjarri því að vera eina breytan sem máli skiptir fyrir þróun norðurslóða og aukna athafnasemi á svæðinu. „Tímabundnar verðsveiflur á hrávöru, líkt og olíu og gasi, geta skipt máli enda kostnaðar- og áhættusamt að leita að og vinna kolvetni á kaldri og hrjóstrugri norðurslóð.“

Þróun alþjóðastjórnmála og svæðisbundinnar samvinnu mun ekki síður hafa áhrif. Bent er á að norðurslóðir hafi að mestu einkennst af stöðugleika og samvinnu ríkja frá lokum kalda stríðsins og brýnt sé að svo verði áfram þrátt fyrir að Úkraínudeilan og breytt landslag öryggismála í Evrópu varpi nú skugga á samskiptin við Rússland.

Hagmunamatinu verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun

Áhugi á norðurslóðum fari vaxandi og vægi þeirra samhliða, enda sækist fjarlæg ríki nú eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu auk þess sem tíðar ráðstefnur séu haldnar um þróun svæðisins og þá fylgist fyrirtæki af ýmsum stærðum með þróuninni.

Færa megi rök fyrir því að ekkert ríki hafi jafnmikla hagsmuni undir og Ísland í hagfelldri þróun norðurslóða og telja ráðherrarnir því rökrétt að hagsmunamatinu verði fylgt eftir með aðgerðaáætlun af hendi þess hóps sem vann hagsmunamatið „með það að leiðarljósi að tryggja mikilvæga hagsmuni Íslands á norðurslóðum,“ að því er segir í skýrslunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert