Össur Skarphéðinsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hafnar ásökunum fyrrverandi formanns Samfylkingarfélags Reykjavíkur um að hafa boðið fólki af erlendum uppruna ríkisborgararétt í skiptum fyrir atkvæði í prófkjöri Samfylkingarinnar fyrir fjórum árum.
„Þetta eru fráleitar getsakir. Þær komu upp fyrir fjórum árum og hafi mönnum þá þótt eitthvað í þessu hefði að sjálfsögðu átt að rannsaka málið á þeim tíma. En vitaskuld er ekkert til í þessu, ég hef aldrei lofað einum einasta manni ríkisborgararétti eða neinu öðru fyrir að styðja mig,“ sagði Össur í samtali við mbl.is í dag.
Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi formaður Samfylkingarfélags Reykjavíkur, sagði í samtali við Stundina að í prófkjöri flokksins fyrir fjórum árum hafi hún orðið vitni að því þegar nokkur fjöldi erlendra borgara staðfesti við túlk að þeim hefði verið lofaður ríkisborgararéttur gegn því að kjósa Össur Skarphéðinsson í prófkjöri Samfylkingarinnar.
„Ég er ekki að segja að hann hafi lofað því persónulega, en það gerði það að minnsta kosti einhver sem vildi veg hans vel í því prófkjöri,“sagði Helga Vala við Stundina.
Spurð í umræðum á Facebook-síðu sinni hvort að hún hafi það staðfest að frambjóðandi hafi lofað kjósanda persónulega ríkisborgararétti í skiptum fyrir stuðning í prófkjöri svarar Helga Vala játandi.
Össur hefur vísað ásökunum Helgu Völu á bug fjölmiðlum. Þegar mbl.is tók Össur tali vísaði hann til greiningar á kjörskrá flokksins þar sem talið var hversu margir á kjörskránni hafi fengið ríkisborgararétt yfir sjö ára tímabil.
„Í gær lét einn af forystumönnum Samfylkingarinnar skoða hversu margir á kjörskránni sem telur um 5.600 manns hafi fengið ríkisborgararétt síðustu sjö ár. Það reyndist vera einn. Það er ekki fótur fyrir þessum ásökunum.“
Samdægurs birti Kvennablaðið tölvupóst sem Össur sendi einstaklingi af erlendum uppruna frá netfangi sínu úr ráðuneytinu. Þar óskar Össur eftir stuðningi mannsins í prófkjöri og undirritar póstinn sem utanríkisráðherra Íslands. Össur segir að ekkert hafi búið að baki skilaboðunum, þau hafi einungis verið hvatning til flokksfélaga.
„Sá tölvupóstur var skrifaður til manns sem var skráður stuðningsmaður í Samfylkingunni og fól ekki í sér nokkur loforð heldur einungis hvatningu til að styðja mig í prófkjörinu sem var daginn eftir.“
Ekki náðist í Helgu Völu Helgadóttur við vinnslu fréttarinnar.