Umferð hefur þyngst talsvert vegna hjólreiðaviðburðarins Tour of Reykjavik sem fer fram í fyrsta sinn í dag. Víða er lokað fyrir akandi umferð í Reykjavík meðan á keppninni stendur. Hún hófst í morgun klukkan 8.30 fyrir framan Laugardalshöll og áætlað er að henni ljúki um tvöleytið eftir hádegi.
Meðal gatnanna sem lokanirnar ná til eru Sæbraut og Bústaðarvegur og er stór hluti miðbæjarins girtur af. Árni Friðleifsson hjá lögreglunni segir að áhrifin séu mikil.
„Þetta hefur verið þungt. Það er verið að loka stórum hluta borgarinnar og þá gefur auga leið að umferðin verður erfið,“ sagði Árni í samtali við mbl.is. Hann bætti við að margir væru ósáttir við að komast ekki leiðar sinnar í miðbæinn.
„Miðbærinn er lokaður þannig fólk kemst ekki þangað á bíl og margir eru ósáttir við það. Ekki geta allir gengið niður í miðbæ, til dæmis ekki allir aldraðir, og svo er Sæbrautin lokuð þannig að fólk er pirrað að komast ekki leiðirnar sem það þekkir. Það á að opna klukkan 14 en við erum að þrýsta á að fá að gera það fyrr.“