Nýr fasi vonandi að hefjast

María Helga Guðmundsdóttir.
María Helga Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Þorkell Þorkelsson

María Helga Guðmundsdóttir, nýkjörinn formaður Samtakanna ´78, vonast til að nýr fasi í starfi samtakanna sé að hefjast. Tímarnir undanfarið hafi verið erfiðir.

María Helga bauð sig fram til formanns á móti Kristínu Sævarsdóttur og hlaut 184 atkvæði á móti 152 hjá Kristínu. Benedikt Traustason var kjörinn gjaldkeri og Júlía Margrét Einarsdóttir ritari.

Ákveðinn endapunktur

„Ég vissi að þetta yrði mjög fjölmennur fundur og að það væri engin leið að spá um það hvernig hann færi. En þetta myndi marka ákveðinn endapunkt á einum fasa í starfi félagsins og upphaf að nýjum, sama hvernig færi,“ segir María.

„Ég fagna því. Þetta hafa verið erfiðir tímar undanfarið og það eru ábyggilega erfið verkefni fyrir höndum en það er gott að hafa lokið þessu.“

Kaus með hagsmunaaðild BDSM

Á aðalfundi  í dag fengu BDSM-samtökin hagsmunaaðild að Samtökunum ´78 en deilur innan síðarnefndu samtakanna hafa verið áberandi upp á síðkastið. María kveðst hafa kosið með hagsmunaaðild BDSM-samtakanna og segist sátt við niðurstöðuna sem varð í því máli.

Frétt mbl.is: BDSM-samtökin fengu aðild

Hún segir að deilurnar undanfarna sex mánuði hafi undið upp á sig og snúist um annað og meira en BDSM-samtökin. „Við höfum talað um alls konar þætti í starfi félagsins og uppbyggingu þess sem eru BDSM-samtökunum algjörlega óviðkomandi. Þessi upprunalegi ágreiningur um hagsmunaaðildina verður í rauninni kveikjan að því að fólk fer að tjá sig um ýmis mál sem hafa kannski ekki verið rædd nógu opinskátt hingað til,“ greinir hún frá.

Hefur sett starfið í mikið uppnám

María telur það að vissu leyti jákvætt enda þurfi reglulega að fara fram samtal um starfsemi eins stórs og fjölbreytts félags og Samtökin´78 eru.

„Fólk hefur verið á öndverðum meiði um hver hafi umboð til að stýra félaginu. Það hefur sett allt starfið í mikið uppnám og þetta gefur okkur ákveðna fótfestu. Ég lít alls ekki svo á að hér með sé komin endanleg niðurstaða í þau deilumál sem upp hafa komið. Þótt ég hafi ákveðnar skoðanir á ýmsum málum þá er það mitt hlutverk og okkar sem stýrum frjálsum félagasamtökum að hafa mikið samráð við félagana um alls kyns mál og það er markmiðið núna, að halda því áfram,“ segir María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka